Greint var frá málinu í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær. Stúlkan var flutt á bráðamóttöku Landspítalans með brunasár í andliti eftir að skólafélagar hennar köstuðu efninu í andlit hennar. Þykir mikil mildi að ekki fór verr þökk sé viðbrögðum fólks í næsta húsi sem stúlkan leitaði til.
Fólkið brást að sögn lögreglu hárrétt við og hellti mjólk í augun á stúlkunni og vatni sem rannsóknarlögreglumaður segir hafa bjargað sjón hennar.
Stíflueyðirinn sem ungmennin notuðu fékkst meðal annars í verslunum Hagkaups. Finnur Oddson forstjóri Haga segir að varan hafi verið tekin strax úr sölu í gærmorgun. Neyðaráætlun hafi verið sett af stað hjá fyrirtækinu sem skoðar nú að setja aldurstakmörk á ýmsar vörur sem innihalda ætandi efni líkt og umræddur stíflueyðir.