Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sinnti tveimur útköllum vegna hópslagsmála í nótt. Öðru í miðbæ Reykjavíkur og hinu í Kópavogi. Einn var stunginn í báðum tilvikum.
Í samtali við fréttastofu segir Elín Agnes Kristínardóttir, aðstoðarvarðstjóri hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, að þeir sem tekið hafi þátt í slagsmálunum hafi verið um það bil tvítugir að aldri.
Slagsmálin og hnífstungan í Kópavogi teljist upplýst og gerendur hafi verið handteknir. Hnífstungan í miðborginni sé hins vegar komin í borð miðlægrar rannsóknardeildar.
Þá segir hún að enginn sé í lífshættu vegna stunguáverka en að hún búi ekki yfir nánum upplýsingum um líðan þeirra stungnu.