„Við erum miklu stærra samfélag en fólk heldur og rosalega gaman að sjá bæði fullorðna og börn taka þátt í söfnun spila, leikjum, námskeiðum og mótum í tengslum við hið stóra og sívinsæla vörumerki Pokémon,“ segir Gunnar Valur G. Hermannsson einn eigenda Pokéhallarinnar.
Viðburðurinn er hugsaður fyrir safnara, aðdáendur og áhugasama um Pokémon.
„Þetta kvöld sem við erum að skipuleggja er fyrir okkar frábæra og skemmtilega fólk, sem elskar Pokémon og allt í tengslum við Pokémon,“ segir Barði Páll Böðvarsson hjá Pokéhöllinni.
Samkoman hefst klukkan 18 og stendur til klukkan 22. Boðið verður upp á veitingar og drykki á meðan birgðir endast. Einnig verða tilboð á Pokémon pökkum, uppboð á grade-uðum spilum, hægt að kaupa allskonar Pokémon varning, efnt verður til happadrættis og ýmislegt gefið eða til sölu.
„Ég sem áhugamaður og safnari sjálfur vildi endilega taka þátt og skipuleggja skemmtilegan viðburð tengdan Pokémon og enn skemmtilegra að hugsa til þess að þetta hefur ekki verið gert áður hér á landi,“ segir Andri Jónsson, annar eigandi Barnaloppunnar.