Japan og Barein höfðu unnið sér inn sæti í úrslitaleik um sæti á Ólympíuleikunum með sigrum gegn Suður-Kóreu og Katar fyrr í vikunni. Japanska liðið vann öruggan ellefu marka sigur gegn Suður-Kóreu, 34-23, en Barein vann dramatískan eins marks sigur gegn Katar, 30-29.
Japanska liðið hafði yfirhöndina stærstan hluta leiksins gegn Barein í gær og leiddi með fimm mörkum þegar flautað var til hálfleiks, staðan 18-13.
Aron og lærisveinar hans klóruðu í bakkann í síðari hálfleik, en náðu ekki að brúa bilið og niðurstaðan varð þriggja marka sigur Japan, 32-29.
Dagur Sigurðsson og lærisveinar hans eru því á leið á Ólympíuleikana í París á næsta ári, en Aron Kristjánsson og lærisveinar hans sitja eftir með sárt ennið.