Félagarnir byrjuðu á því að stoppa við Litlu Kaffistofuna þar sem þeir héldu smá athöfn til að fagna nýrri plötu kórsins, sem er nú komin á Spotify. Lagið var tekið og mikil og góð stemming var á staðnum.
Eftir það hélt kórinn á Flúðir í heimsókn til Karlakórs Hreppamanna þar sem boðið var upp á hrossakjöt með öllu tilheyrandi. Á heimleiðinni á laugardaginn var komið við í sundlauginni á Selfossi og lagið tekið í heita pottinum og Mullersæfingar gerðar á bakkanum. Allt eins og það á að vera.
„Það er ægilega gaman hjá okkur, það hefur alltaf verið rosalega gaman hjá okkur fyrst og fremst. Út á það gengur þetta og það eru sérstök forréttindi að fá að tilheyra samfélagi karlakóra á Íslandi. Það er einhver besta íþrótt sem völ er á,” segir Kári Allansson, þriðjuvaktastjóri Karlakórsins Esju eins og hann kynnir sig sjálfur.

En að vera í karlakór, hvað er það að gefa mönnum?
„Það er nú bara bræðralagið, bræðraþelið og einhvers staðar þurfa vondir að vera á þessum síðustu og verstu tímum þegar okkar kyn sætir miklum ákúrum frá betri helmingnum fyrir að standa okkur ekki nógu vel á þriðju vaktinni. Og það er svona sem við söfnum kröftum í bræðraþeli og komum til baka endurnærðir og glaðir og erum almennt til friðs á okkar heimilum,” bætir Kári við glottandi út í annað.
