Spænskir fjölmiðlar segja að hinn 78 ára Vidal-Quadras hafi verið skotinn í andlitið í miðju Salamanca-hverfinu í Madríd. Hann hafi svo verið fluttur alvarlega særður á La Princesa-sjúkrahúsið. Árásin átti sér stað um klukkan 13:30 að staðartíma.
El Mundo segir að Vidal-Quadras hafi verið einn á ferð þegar maður hafi gengið upp að honum og skotið hann af um tveggja metra færi. Árásarmaðurinn hafi svo flúið af vettvangi á bifhjóli.

Vidal-Quadras er frá Barcelona, menntaði sig sem eðlisfræðingur og starfaði sem slíkur áður en hann hóf stjórnmálaferil sinn.
Hann átti sæti á katalónska þinginu áður en hann var kjörinn á Evrópuþingið árið 1999 og átti þar sæti fyrir Lýðflokkinn (s. Partido Popular) til ársins 2014. Þá tilkynnti hann að hann hefði gengið til liðs við hægriöfgaflokkinn Vox.
Hann var frambjóðandi Vox í kosningunum til Evrópuþingsins árið 2014 en tókst ekki að ná sæti í kosningum.