„Ég er mjög glöð með frammistöðuna. Mér fannst við glaðar allan tímann og vorum alltaf peppaðar. Við stóðum okkur hrikalega vel í vörninni og ég var með það í hausnum þegar að ég kom inn á að standa mig vel í vörninni,“ sagði Jana Falsdóttir í samtali við Vísi eftir leik.
Varnarleikur íslenska liðsins var gríðarlega góður sem setti Tyrkina í vandræði og Jana var ánægð með hörkuna og baráttuna hjá liðinu.
„Við komum inn í þennan leik og ætluðum að buffa þær og láta þetta vera erfitt fyrir þær. Við vissum að þær voru með sterkt lið og markmiðið í þessum leik var að vera pirrandi.“
Munurinn á liðunum var aðeins sjö stig og Jana var svekkt með hvernig liðið endaði fyrri hálfleik þar sem gestirnir enduðu á að gera níu stig í röð.
„Við vorum frekar óheppnar og dómararnir voru ekki með okkur í þessum leik en maður var ekkert að spá í því. Sigurinn átti að vera í okkar höndum.“
Jana spilaði sinn fyrsta A-landsleik í kvöld og var gríðarlega ánægð með landsliðsverkefnið í heild sinni.
„Þetta hefur verið þvílík reynsla og að spila með svona reyndum leikmönnum hefur verið svakalegt. Það er alltaf skemmtilegt að fá að taka þátt í svona verkefni,“ sagði Jana að lokum.