Rauða serían hóf göngu sína á Íslandi sumarið 1985 þegar bókin Spegilmynd ástarinnar var gefin út. Hafði hugmyndin á því að gefa bækurnar út kviknað nokkrum mánuðum fyrr hjá Rósu Vestfjörð Guðmundsdóttur. Hún hafði þá rekið prentsmiðjuna Ásprent ásamt eiginmanni sínum Kára í nokkur ár.
„Ég var að lesa Dag og Kári var að keyra með mér suður. Þá brýt ég Dag saman og segi við hann, eigum við ekki bara að fara að gefa út pocket-bækur. Einhverjar ódýrar pocket-bækur. Kári alltaf svo jákvæður og sagði já þú reddar þessu bara og þetta var upphafið,“ segir Rósa.
Nú hefst lestur
Nú 38 árum síðar eru titlarnir orðnir um það bil 2.300 talsins en sá síðasti hefur nú þegar verið gefinn út. Lesendum hefur farið fækkandi síðustu ár og kominn tími til að seríunni ljúki. Rósa ætlar þó ekki að kveðja bækurnar alveg.
„Tilfinningin er ansi skrítin. En svona er lífið, það er minnkandi lestur en ég get ekki alveg hætt að vinna. Þá ætla ég að fara að lesa hljóðbækur. Ég útbjó mér stúdíó í saumaherberginu mínu. Og þá ætla ég að fara að lesa hljóðbækur,“ segir Rósa.
Ætlar ekki að bora í nefið
Öllum átta þýðendum Rauðu seríunnar hefur verið sagt upp, þar á meðal einum sem hafði starfað fyrir Ásprent og Rósu síðan árið 1979. En hvað tekur við fleira en lestur inn á hljóðbækur? Listin eða hjólreiðar koma sterklega til greina.
„Svo eru gönguskíðin komin í nefnd,“ segir Rósa.
Svo það er ekki eins og þú sért bara að fara að bora í nefið?
„Ég kann ekki að sitja kyrr,“ segir Rósa að lokum og hlær.