„Okkur fannst vanta spil sem sameinar fjölskyldur og vini, svolítið eins og Hemmi Gunn heitinn gerði það. Maður fær að kynnast fólki upp á nýtt og heyra sögur sem maður hefur aldrei heyrt áður,“ segir Hjálmar stoltur af nýjasta barni þeirra félaga.
Spilið ber nafnið Heita sætið og gefur fólki tækifæri á að kynnast enn betur. Spilið unnu þeir ásamt þúsundþjalasmiðunum Bjarka Sigurjónssyni, Snorra Páli Þórðarsyni og Jóni Björvini Guðmundssyni. En þeir eru heilarnir á bakvið spilið Brain Freeze.

Barnabarnið kynntist ömmu betur
Helgi segir frá því að eldri kona og barnabarn spiluðu umrætt spil á dögunum. Þegar leið á spilið kom í ljós að amman hafði aldrei verið í leikskóla, barnabarninu til mikillar undrunar.
„Amman átti að raða í röð hvað henni þótti skemmtilegast að gera í leikskóla, grunnskóla og menntaskóla. Það kom í ljós að amma gamla fór aldrei í leikskóla sem leiddi til skemmtilegs samtals þeirra á milli,“ segir Helgi.
Hjálmar grípur orðið:
„Það hafði ungur maður samband við mig og vildi fá spilið með sér á stefnumót seinna um daginn. Eftir stefnumótið sagði hann mér að spilið hafi hjálpað til við að opna á samræður og fleira,“ segir Hjálmar.
„Ég veit svo sem ekkert hvað þetta fleira þýðir,“ bætir hann við og hlær.