Blaðamannafundinn má sjá í beinni útsendingu hér að neðan:
Mennta- og barnamálaráðuneytið og Menntamálastofnun, í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga, Kennarasamband Íslands, Menntavísindasvið HÍ og Heimili og skóla, boða til fundarins, sem haldinn er í Eddu, nýju húsi Stofnunar Árna Magnússonar að Arngrímsgötu 5 við Þjóðarbókhlöðuna.
PISA (Programme for International Student Assessment) er umfangsmikil alþjóðleg könnun á vegum OECD á hæfni og getu fimmtán ára nemenda í lesskilningi, læsi á náttúruvísindi og læsi á stærðfræði. Sá aldur er valinn þar sem hann markar lok skólaskyldu í flestum löndum.
Alls tekur 81 þjóð þátt í könnuninni, þar af 37 aðildarríki OECD. Menntamálastofnun sér um framkvæmd rannsóknarinnar á Íslandi fyrir hönd mennta- og barnamálaráðuneytisins.
Könnunin er lögð fyrir á þriggja ára fresti og í hverri könnun leysa nemendur verkefni í lesskilningi, læsi á stærðfræði og læsi á náttúruvísindi. Ísland hefur tekið þátt í PISA frá fyrstu könnun árið 2000 þegar 43 ríki tóku þátt. Fjögur ár eru liðin frá síðustu könnun vegna áhrifa heimsfaraldurs.
Í PISA 2022 voru nemendur einnig spurðir um upplifun af námi og kennslu, líðan, félags- og tilfinningafærni og nám, kennslu og stuðning á COVID-tímum. Könnunin var lögð fyrir í mars og apríl 2022 og liggja niðurstöður nú fyrir. Tæplega 3.400 nemendur tóku þátt og var þátttökuhlutfall 80 prósent.