Alls fóru níu leikir fram á HM kvenna í dag og í kvöld og var viðureign Japans og Danmerkur hluti af fyrstu umferð milliriðils þrjú.
Danska liðið byrjaði betur og náði þriggja marka forystu snemma leiks, en Japanir jöfnuðu fljótt metin og staðan í hálfleik var jöfn, 12-12.
Japanska liðið hafði svo yfirhöndina stærstan hluta seinni hálfleiks og náði mest fjögurra marka forystu í stöðunni 16-20. Danska liðið lagði þó ekki árar í bát og var hársbreidd frá því að stela sigrinum af japanska liðinu. Danir jöfnuðu metin í 26-26, en Japanir skoruðu síðasta mark leiksins og unnu eins marks sigur, 26-27.
Í sama riðli vann Þýskaland tveggja marka sigur gegn Rúmenum og Pólverjar unnu eins marks sigur gegn Serbum. Þjóðverjar eru þar með einir á toppi riðilsins með sex stig, Danir og Pólverjar eru jafnir með fjögur, Japan og Rúmenía með tvö og Serbar reka lestina án stiga.
Þá unnu Kínverjar þriggja marka sigur gegn Paragvæ í riðli okkar Íslendinga í Forsetabikarnum, 23-20.
Úrslit kvöldsins
Svartfjallaland 25-26 Króatía
Serbía 21-22 Pólland
Þýskaland 24-22 Rúmenía
Senegal 20-30 Ungverjaland
Danmörk 26-27 Japan
Svíþjóð 37-13 Senegal
Forsetabikarinn
Síle 30-20 Íran
Kína 23-20 Paragvæ
Grænland 14-37 Ísland