Chiellini, sem er 39 ára gamall, lék stærstan hluta ferilsins með Juventus í ítölsku úrvalsdeildinni þar sem varnarmaðurinn lék 425 deildarleiki fyrir félagið og skoraði í þeim 27 mörk. Hann gekk til liðs við félaigði frá uppeldisliði sínu, Livorno, árið 2004 og lék með liðinu til ársins 2022 þegar hann gekk í raðir Los Angeles FC í bandarísku MLS-deildinni.
Chiellini greindi frá ákvörðun sinni að leggja skóna á hilluna á samfélagsmiðlum sínum og sagði þar frá því að knattspyrnuferillinn hafi verið honum allt. Nú sé hins vegar komið að því að takast á við nýjar áskoranir og rita nýja kafla í líf sitt.
You have been the most beautiful and intense journey of my life.
— Giorgio Chiellini (@chiellini) December 12, 2023
You have been my everything. With you I have travelled a unique and unforgettable path.
But now it is time to start new chapters, face new challenges and write further important and exciting pages of life. pic.twitter.com/IjHDDE4jMe
Á ferli sínum vann Chiellini til fjölda titla, flestra þegar hann var leikmaður Juventus. Hann varð meðal annars ítalskur meistari með liðinu níu ár í röð frá 2012 til 2020 og ítalskur bikarmeistari fimm sinnum, þar af fjögur ár í röð frá 2015 til 2018.
Hans seinasti leikur á ferlinum var í úrslitum MLS-deildarinnar með LAFC þar sem liðið þurfti að sætta sig við silfurverðlaun eftir tap gegn Columbus Crew.