Ísland var í 14. sæti á listanum sem birtur var 25. ágúst síðastliðinn og hefur aldrei verið eins ofarlega á listanum.
Frá því að síðasti listi var birtur hefur Ísland spilað sex leiki í Þjóðadeild UEFA, þar sem liðið vann tvo sigra gegn Wales og svo frækinn útisigur gegn Danmörku fyrir tíu dögum. Liðið tapaði hins vegar tveimur leikjum gegn Þýskalandi og heimaleiknum gegn Danmörku.
Danmörk fellur einnig niður um eitt sæti og er í 13. sæti, en Ítalía fór upp um þrjú sæti og komst upp fyrir Ísland í 14. sæti.
Norska stórveldið heldur áfram að falla
Stelpurnar okkar eru hins vegar komnar upp fyrir Noreg í fyrsta sinn í sögunni. Norska landsliðið á einn heimsmeistaratitil, tvo Evrópumeistaratitla og einn ólympíumeistaratitil í sínu safni en hefur aldrei verið eins neðarlega á heimslistanum, eða í 16. sæti, eftir fall niður um þrjú sæti á milli lista.
Spánn komst í efsta sæti listans í fyrsta sinn, Bandaríkin eru í 2. sæti, Frakkland í 3. sæti og England í 4. sæti. Svíar voru áður á toppi listans en féllu niður um fjögur sæti, eftir meðal annars tvö töp gegn Spáni og eitt gegn Sviss í Þjóðadeildinni nú í haust.
Noregur og Svíþjóð eru á leið í umspil á milli liða úr A- og B-deild Þjóðadeildarinnar í febrúar, líkt og Ísland sem mætir þá Serbíu í tveimur leikjum. Þessar þrjár Norðurlandaþjóðir enduðu allar í 3. sæti síns riðils í A-deildinni.