Gunnar Örn segir að í skýrslunni sé alvarlegri vanrækslu lýst og að tvennt standi upp úr við lestur hennar.
„Það er bæði það að á þessum tíma virðist starfsemi Arctic Fish á svæðinu hafa verið í einhvers konar lamasessi. Stjórnendur og starfsmenn svara MAST þannig að það hafi verið svo mikið að gera að þeir ráði ekki neitt við neitt. Staðreynd málsins er í raun sú að alveg sama hversu mikið þú vandar þig þá mun eldislax sleppa í opnu sjókvíaeldi. Þá einhvern veginn lýsir þetta bara því fúski sem viðgengst í greininni,“ segir Gunnar Örn en hann var til viðtals í Kvöldfréttum Stöðvar 2.
Í öðru lagi segir hann að starfsmenn viðurkenni að það hafi átt að framkvæma neðansjávareftirlit fyrir löngu í þessari kví en að því hafi ítrekað verið slegið á frest.
„Það er mjög alvarlegt mál þegar það er svona mikið í húfi.“
Lögreglustjórinn á Vestfjörðum tilkynnti í desember að rannsókn embættisins á máli tengt Arctic Fish hefði verið hætt. Málið varðaði það þegar á fjórða þúsund eldislaxa sluppu úr sjókví hjá Arctic Fish í Patreksfirði í ágúst í fyrra. Landssamband veiðifélaga sagði í yfirlýsingu fyrir áramót að þau ætluðu að kæra ákvörðunina.
Gunnar Örn segir lögin mjög skýr og setur stórar spurningar við það að lögreglustjórinn hafi látið rannsóknina niður falla.
„Við trúum því að lögin séu mjög skýr um þetta og þetta snúist í raun um vankunnáttu lögreglustjórans á Vestfjörðum í málinu. Einfaldlega misskilningi og vankunnáttu á refsiheimildum laganna. Þau lögin séu óskýr um margt þá eru þau skýr um þetta,“ segir Gunnar Örn og að það væri hægt að leysa þetta með því að ráða einfaldlega fólk til vinnu sem getur skilið lögin.
„En það vakna spurningar, að því þetta er svo augljóst, hvort það séu einhver önnur öfl sem ráða þarna ferðinni. Hvort lögreglustjórinn á Vestfjörðum einfaldlega treysti sér ekki til að fara áfram gegn þessu fyrirtæki með málið. Sem hafa svona mikil völd í samfélögunum fyrir vestan.“
Spurður hvað honum finnist um það eftirlit sem er í boði núna segir hann að það þurfi að stórauka það. Hann vonar að MAST kæri einnig ákvörðun lögreglustjórans eins og Landssambandið ætlar að gera.
Hann segir að hans mati sé ekki hægt að halda laxeldi áfram í óbreyttri mynd.