Bjarki var brattur eftir létta æfingu landsliðsins í gærkvöld, eftir rútuferðina frá Austurríki þar sem Ísland vann tvo vináttulandsleiki við heimamenn.
„Við teljum okkur vera á góðri leið. Við erum að slípa saman bæði vörnina og sóknina, erum búnir að fara vel yfir Serbana, og höldum því bara áfram [í dag]. Tilfinningin er góð,“ sagði Bjarki. Hann telur íslenska liðið mæta nokkuð svipað í stakk búið til leiks í ár eins og í fyrra, þegar það endaði í 12. sæti á HM, einu sæti á eftir Serbíu.
„Í fyrra var Ómar svolítið tæpur í hásininni, og í staðinn er Gísli núna tiltölulega nýkominn til baka eftir meiðsli. Þetta er bara partur af þessu. Það eru margir að glíma við eitthvað en við komum bara nokkuð ferskir og bjartsýnir til leiks.“
Dr. Peter O‘Donoghue, prófessor við íþróttafræðideild HR, spáði rétt fyrir um gengi Íslands á HM í fyrra, og í gær greindi hann frá þeirri niðurstöðu sinni að líklegast væri að Ísland yrði í 9.-11. sæti á EM. Yrði það ásættanleg niðurstaða í augum Bjarka?
„Þetta eru náttúrulega bara einhver líkindi. Ég fer alla vega ekki með þann draum inn í mótið að ætla mér að ná níunda sæti. Það fallega við íþróttirnar er að það getur allt gerst. Við erum með okkar markmið. Það er að byrja á því að vinna Serbana, en svo held ég að allir viti að við eigum stóra drauma innan liðsins. Við verðum bara að sjá til.“
Fyrsta mál á dagskrá er að takast á við öflugt lið Serba:
„Þeir eru með mjög gott lið. Tvo frábæra markmenn, tvo þunga línumenn, mjög góðan miðjumann í [Lazar] Kukic. Við þurfum að ná tökum á honum og hindra línusendingarnar. Spila okkar leik og þá tel ég okkur eiga mjög góða möguleika.“
Félagi Bjarka í vinstra horninu, Stiven Tobar Valencia, spilar nú í fyrsta sinn á stórmóti en hvernig hefur hann smollið inn í liðið?
„Bara vel, eins og allir sem hafa komið inn í þetta með mér. Þeir hafa verið þónokkrir. Hann er ferskur og góður í handbolta, og gaman að honum. Hann er að koma flott inn í þetta.“
Fyrsti leikur Íslands á EM er við Serbíu á morgun klukkan 17. Íþróttadeild Sýnar er í München og mun fjalla ítarlega um allt sem tengist leiknum í máli og myndum.