Tveir erlendir ferðamenn létust þegar tveir bílar skullu saman við afleggjarann að Skaftafelli. Sex voru fluttir með þyrlu til aðhlynningar í Reykjavík en ekki er talið að fólkið sé mikið slasað, að sögn Sveins Kristjáns Rúnarssonar, yfirlögregluþjóns á Suðurlandi.
Þriðji ferðamaðurinn, sem var með hinum látnu í bíl, lifði slysið af. Þeir tengjast fjölskylduböndum. Fimm Íslendingar voru í hinum bílnum, þar á meðal börn. Eins og áður segir er ekki talið að þau, eða aðrir sem komust lífs af, séu mikið slösuð. Fram hefur komið að hált var á slysstað þegar áreksturinn varð.