Hver hefur ekki gaman af því að fara á skíði nú yfir háveturinn, sem hluti af skemmtilegri útivist, hreyfingu og góðri andlegri líðan, svo ekki sé minnst á góðan félagsskap. Ólöf Ýrr Atladóttir, fyrrverandi ferðamálastjóri og Arnar Þór Árnason, maður hennar eru með ferðafyrirtækið Sóti Summits þar sem þau bjóða meðal annars upp á fjölbreyttar og vinsælar skíðaferðir og í kringum starfsemina eru þau með sveitahótel í Sólgörðum í Fljótum, sem var áður skólahús og kallast í dag Sóti Lodge en sjálf ferðaskrifstofan þeirra er á Siglufirði.
„Hér á Siglufirði bjóðum við upp á dagsferðir á sumrin og svo erum við með skíðaferðir af hverskyns tagi, gönguskíðaferðir, fjallaskíðaferðir á veturna og erum þá með fólkið okkar á hótelinu í Fljótum,“ segir Ólöf.

Ólöf segir að Siglufjörður og svæðið þar í kring sé vagga íslenskra skíðamennsku.
„Þetta er mjög skemmtilegt, þetta er mikil vinna en mjög skemmtileg því það er alltaf gaman að búa til minningar með fólki, sem að gleðja það.Tröllaskagi hefur upp á gríðarlega margt að bjóða, sérstaklega fyrir fólk, sem þyrstir í að stunda útivist. Vera í gönguferðum, hjólaferðum, skíðaferðum og já, þetta er vaxandi svæði og á mikið inni í þeim efnum,“ bætir Ólöf við.
Og Ólöf segir að nú sé allt á fullu í kringum skíðin, Íslendingar séu til dæmis mjög duglegir að koma á gönguskíði og þá séu erlendir ferðahópar líka að koma til landsins til að fara á skíði.
„Hér er náttúrulega eitt besta skíðasvæði landsins í Skarðsdal og svo er Tröllaskagi náttúrulega orðin gósen land þeirra, sem vilja stunda fjallaskíði.“
En hvernig líst fyrrverandi ferðamálastjóra á stöðu íslenskrar ferðaþjónustu nú þegar reiknað er með 2,4 milljónum ferðamanna til landsins í ár.
„En ég held að Ísland sem heild sé ekki uppselt eins og sagt er heldur held ég að það sé enn þá verk í vinnslu og ég held að áfram með vaxandi ferðaáhuga mannkyns, sem virðist vera það sem 20. öldin hefur einkum einkennst af út um allan heim, þá verðum við að takast á við þá hluti því fólk mun vilja ferðast og ekki síst til Íslands,“ segir Ólöf Ýrr.
