„Fuglasöngur á dásamlegum stað með drauma nágranna 360° í kringum húsið. Hvað liggur þér á hjarta? spyr Facebook þegar ég deili þessum hlekk sem segir sanna sögu af mér í persónulega lífinu sem er sú að við erum opin fyrir því að selja húsið okkar,“ skrifar Andrea og deilir færslunni á Facebook.

Andrea segir húsið staðsett við götu sem hefur átt sérstakan stað í hjarta hennar frá unga aldri. Margir velta því þá eflaust fyrir sér hvers vegna hún vilji flytja á ný. En fjölskyldan festi kaup á eigninni árið 2022 eftir að hafa selt einbýlishús við Hvannalund 15 í Garðabæ.
„Þið sem mig þekkja vitið að það er ávallt mikil framkvæmdagleði í gangi og umframorka í stórum skömmtum - og það virðist ekkert vera að minnka með árunum. Þannig að þetta gæti verið upphafið á einhverju nýju ef fólk sýnir þessari glæsilegu eign áhuga næstu daga. Þá erum við geim – svo einfalt er það,“ skrifar Andra um ákvörðunina.
Um er að ræða 195 fermetra einbýlishús á einni hæð. Samtals eru þrjú svefnherbergi, með möguleika á því fjórða, og tvö baðherbergi.
Heimili fjölskyldunnar er innréttað á fallegan máta þar sem gráir litatónar, viður og grænar plöntur eru í forgrunni. Miðrými hússins er bjart með góðri lofthæð og samanstendur af stofu og borðstofu. Þaðan er gengið inn í eldhús með hvítri innréttingu.
Inn af eldhúsi er þvottahús, þaðan er útgengt í stóran skjólsæla garð með háum trjám. Í kringum húsið er timburverönd með heitum potti og glerskáli sem nýtist allan ársins hring.
Nánari upplýsingar má finna á fasteignavef Vísis.




