Greint er frá andlátinu í Morgunblaðinu í dag, en Gísli lést á Hrafnistu í Reykjavík síðastliðinn þriðjudag.
Um Gísla segir að hann hafi fæðst í Hrísey en síðar flust í Kópavog þegar hann var á táningsaldri. Hann stundaði nám í radíósímvirkjun og vann lengi við mælingar fyrir sjónvarpsútsendingar víða um land. Gísli varð svo tæknimaður og tæknistjóri við Sjónvarpið og síðar deildarstjóri rekstrardeildar Stöðvar 2.
Hann festi svo kaup á Verslun Sölufélags garðyrkjumanna árið 1991 og stofnaði svo Garðheima við Stekkjarbakka í desember 1999. Hann stjórnaði fyrirtækinu fram á efri ár, en börn hjónanna tóku svo við rekstrinum og hafa Garðheimar nú flutt í nýtt húsnæði við Álfabakka.
Gísli lætur eftir sig eiginkonuna Jónínu Sigríði Lárusdóttur, en þau eignuðust fjögur börn.
Gísli og Jónína ráku einnig saman matvöruverslunina Langholtsval, Snakk- og videohornið í Engihjalla og tískuvöruverslunina Viktoríu við Laugaveg.