Dæmigerð einkenni eru hiti og útbrot en veiran getur valdið alvarlegum veikindum og í alvarlegustu tilfellunum skaða á heyrn og sjón og jafnvel dauða.
„Það er til öflugt og gott bóluefni gegn mislingum sem ver fólk fyrir lífstíð og er gefið börnum,“ sagði Guðrún sem ræddi mislinga í Bítinu á Bylgjunni í morgun.
Hún sagði mislinga afar smitandi og hafa mikil áhrif á þá sem ekki eru bólusettir. Eins og ung börn eða fullorðna sem ekki hafa fengið bólusetningu af einhverjum ástæðum. Þátttaka í bólusetningum vegna mislinga hefur dvínað að sögn Guðrúnar.
„Það þarf ansi háa þátttöku til að ná þessu svokallaða hjarðónæmi þannig ef smit berst til okkar þannig það nái þá ekki að dreifa sér um samfélagið,“ sagði Guðrún og að eins og stendur væri ekki hjarðónæmi á Íslandi og því meiri áhætta á hópsýkingum.
Hún segir að hingað hafi komið mislingar árið 2019. Þá hafi tíu smitast og þeim tekist að stöðva frekari útbreiðslu með bólusetningum.
Spurð um ástæður þess að þátttaka hafi farið minnkandi í bólusetningum segir Guðrún margar ástæður fyrir því að en að heimsfaraldur Covid hafi haft áhrif.
Færri hafi þegið bólusetningar þá og við dregist aftur úr en að það hafi verið vísbendingar um minni þátttöku fyrir Covid. Hún segir að unnið sé að því með heilsugæslunni að auka þátttöku.
„Við mælum sterklega með því,“ svaraði Guðrún um það hver helstu skilaboð þeirra væru til foreldra sem væru efins um bólusetningar.
„Þessar bólusetningar sem er boðið upp á hér og er mælt með fyrir börn eru öruggar. En auðvitað er sjálfsagt að fók ræði það við sinn lækni, heimilislækni eða barnalækni, ef það er eitthvað óöruggt,“ sagði Guðrún.
„Það er ekkert að óttast,“ spurði Heimir Karlsson?
„Það er ekkert að óttast nema að fá sýkingarnar sem er miklu, miklu verra,“ svaraði Guðrún.
Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni hér að ofan.