„Á síðasta ári var mikið um að vera, breytingar og fleira. Mig langaði því að hægja svolítið á mér og vera í núinu. Ég hef náð fjölda markmiða og lært af alls kyns hlutum,“ segir Camilla í samtali við Vísi.
Hún segir miðlana hafa tekið of mikinn tíma frá sér í daglegu lífi.
„Fólk sem er með mikið fylgi á samfélagsmiðlum og starfar við efnisgerð hefur talað mikið um hvað það sé auðvelt að gleyma sér. Það að þurfa ekki að vera stöðugt að pæla í Instagram, áliti annarra, glansmyndinni og sýna alla sigrana, eða hvernig sem það er, getur reynt á mann. Það á auðvitað við alla um aðra líka, “ segir Camilla.
„Ég var farin að gleyma mér og fann hvað síminn var farinn að éta upp tímann minn dagsdaglega.“
Holl áminning
Að sögn Camillu er hollt að kúpla sig frá tækjunum og staldra við í núinu.
„Mér finnst hollt og gott að draga sig aðeins út úr öllu sama og vera meira í núinu. Taka á móti börnunum eftir skóladaginn og bara vera. Það er ofboðslega gott að pæla minna í þessu,“ segir hún.
Aðspurð hvort hún ætli sér að snúa aftur á Instagram svarar Camilla því játandi.
„Ég sakna samfélagsins á miðlunum og mun snúa aftur en með öðrum áherslum fyrir sjálfa mig,“ segir Camilla að lokum.