Verðbólga hefur minnkað um eitt prósentustig frá því í desember þegar hún var 7,7 prósent. Verðbólga var undir 2,5 prósent verðbólgumarkmiði Seðlabankans allt frá árinu 2014 til haustsins 2020 þegar hún tók að aukast og hefur verið yfir markmiðinu frá því í júní 2020. Hún fór í fyrsta skipti yfir fimm prósent ídesember 2021 og jókst hratt eftir það og varð mest 10,2 prósent í febrúar í fyrra.
Í fyrra vor og fram á sumar hjaðnaði verðbólgan töluvert en undanfarna mánuði hefur hún verið í kringum átta prósent. Eins prósenta lækkun nú niður í 6,7 prósent sætir því nokkrum tíðindum.
Helsta skýring Hagstofunnar á hjöðnun verðbólgunnar frá því í desember eru janúarútsölurnar með lækkun á verði fatnaðar og skófatnaðar um 9,2 prósent og lækkun á verði flugfargjalda um 11,4 prósent.

Anna Hrefna Ingimundardóttir aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir þetta jákvæðar fréttir inn í yfirstandandi kjaraviðræður.
„Já, vissulega. Greiningaraðilar höfðu gert ráð fyrir meiri verðbólgu. Þannig að þetta voru mjög jákvæðar fréttir,“ segir Anna Hrefna. Vonandi haldi þessi þróun áfram með jákvæðum áhrifum á gerðkjarasamninga og vonandi væru verðbólguvæntingar einnig að minnka.
Fyrsti vaxtaákvörðunardagur Seðlabankans á þessu ári er á miðvikudag í næstu viku hinn 7. febrúar. Á síðasta vaxtaákvörðunardegi hinn 22. nóvember hélt bankinn meginvöxtum sínum óbreyttum meðal annars til að gefa aðilum vinnumarkaðarins svigrúm til kjaraviðræðna.

Það kólnaði hins vegar í viðræðum breiðfylkingar stéttarfélaga innan Alþýðusambandsins og fulltrúa Samtaka atvinnulífsins í síðustu viku sem hafa ekki fundað frá því á fimmtudag. Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari hefur þó kallað til fundar á morgun.
„Ég bara leyfi mér að vona að það komi allir jákvæðir inn á þennan fund. Ekki síst í ljósi þessara jákvæðu frétta. Það er auðvitað alltaf markmiðið og við erum að sjálfsögðu til í að eiga jákvætt og gott samtal við þau,“ segir Anna Hrefna Ingimundardóttir.
Það væri hins vegar erfitt að spá fyrir um hvenær deiluaðilar næðu það langt að landi að þeir geti kynnt einhverja niðurstöðu fyrir stjórnvöldum til að kanna hvað þau eru reiðubúin að gera til að liðka fyrir samningum.