Í frétt Rai News segir að maðurinn hafi undir dulnefni haft samband við fjölda ungra stúlkna á ýmsum samfélagsmiðlum og kúgað þær til að senda sér kynferðislegar myndir.
Miðillinn vísar í svör lögreglu sem telur að fórnarlömb mannsins á Ítalíu séu í það minnsta fimmtíu. Rannsóknin sé viðamikil og hafi verið í gangi í yfir þrjú ár. Það hafi flækt fyrir rannsókninni að maðurinn hafi notað mörg dulnefni og erlend símanúmer.
Maðurinn er í haldi lögreglu grunaður um vörslu kynferðislegs efnis af börnum undir lögaldri með því að hafa villt á sér heimildir og haft í hótunum.
Óttast er að fórnarlömb mannsins séu mun fleiri. Þau rúmlega fimmtíu eru aðeins þau sem hafa haft samband við lögregluna á Ítalíu. Fórnarlömbin gætu verið víðar í heiminum.
Til stendur að framselja manninn til Ítalíu að því er fram kemur í ítölskum miðlum og er vinna við það þegar hafin.