Í tilkynningu um kaupin segir að fyrir reki félagið gagnaver á Blönduósi, Fitjum í Reykjanesbæ og á Korputorgi í Reykjavík.
Samhliða kaupunum sé stefnt að frekari stækkun á gagnaverinu en það sé staðsett í grænum iðngarði, Renforsin Ranta business park. Á sama stað sé LUMI, ein stærsta græna ofurtölva heims en nokkrar þjóðir reki hana þar á meðal Ísland í samstarfi við EuroHPC. Hún sé leiðandi vettvangur í rannsóknarstarfi og gervigreind í Evrópu.

Gagnaverið hafi upphaflega verið rekið af upplýsingatæknifyrirtækinu Herman IT sem hafi haft sjálfbærni að leiðarljósi en það sé í takt við stefnu Borealis að lágmarka umhverfisáhrif. Gagnaverið sé eingöngu knúið endurnýjanlegri orku, bæði vatns- og vindorku.
Finnskt loftslag líka gott fyrir gagnaver
„Gagnaverið í Kajanni er hannað samkvæmt ítrustu kröfum og er þar nægt aðgengi að endurnýjanlegri orku og öruggum innviðum. Finnland og Ísland eiga það sameiginlegt að kalt loftslag er hagstætt fyrir rekstur gagnavera. Er gagnaverið kærkomin viðbót sem styrkir vöruframboð Borealis enn frekar og verður ánægjulegt að taka á móti viðskiptavinum í þetta nýja gagnaver félagsins“, er haft eftir Birni Brynjúlfssyni, forstjóra og einum af stofnendum Borealis Data Center.
Meðfram starfsemi LUMI, öfurtölvunnar hafi verið mikil uppbygging í samfélaginu tengd gagnaverum og til dæmis bjóði háskólinn á svæðinu, Kajaani University of Applied Sciences (KAMK), upp á nám tengt gagnaverum.
„Hægt væri að skapa sams konar samfélag hér á landi og í því felast mörg tækifæri en Ísland hefur alla burði til að vera í fremstu röð sem miðstöð fyrir alþjóðlega gagnaversþjónustu ef rétt er haldið á spilunum,“ er haft eftir Birni.
Kalla eftir aðkomu stjórnvalda
Mikill uppgangur sé á Norðurlöndunum í rekstri gagnvera en nágranna- og samkeppnislönd Íslands hafi komið til móts við greinina með því að setja markvissa stefnu um frekari uppbyggingu. Til dæmis hafi Google nýlega ákveðið að byggja gagnaver í sextíu þúsund manna bæ í Noregi og talið sé að 4.000 störf skapist við þá uppbyggingu. Öll helstu tæknifyrirtæki heims á borð við Microsoft og Meta hafi komið sér fyrir á hinum Norðurlöndunum. Þessi uppbygging á Norðurlöndunum hafi átt sér stað síðastliðinn áratug með aðstoð stjórnvalda.
Mikill vöxtur sé framundan á alþjóðlegum mörkuðum fyrir þjónustu gagnavera meðal annars vegna þeirrar tæknibyltingar sem er að eiga sér stað á vettvangi gervigreindar auk þess sem kolefnisspor gagnaversþjónustu er farið að skipta viðskiptavini meira máli. Borealis Data Center hyggist fjárfesta fyrir milljarða króna í uppbyggingu á næstu misserum.
Meðal viðskiptavina Borealis séu innlend og erlend fjármálafyrirtæki, netfyrirtæki, veitu- og innviðafyrirtæki, fyrirtæki og stofnanir sem standa að rekstri gervitungla, lyfjaiðnaðurinn, bílaframleiðendur og upplýsingatæknifyrirtæki.