Bændablaðið greindi frá þessu á dögunum en Bændasamtökin hafa gert alvarlegar athugasemdir við þessa ákvörðun stjórnvalda og hún meðal annars sögð skerða atvinnufrelsi, þar sem fyrirsjáanlegt sé að fjöldi hryssa í blóðtökustarfsemi verði takmarkaður. Samtökin myndu sækja bætur vegna málsins.
Málið var þingfest þann 7. febrúar og flýtimeðferð fyrir dómstólum.
Í ákvörðun Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra fólst að reglugerð sem átti við um starfsemi Ísteka, sem einblínir á blóðtöku úr fylfullum hryssum, var felld úr gildi. Starfsemin væri þess í stað felld undir reglugerð um dýratilraunir. Sú reglugerð felur í sér innleiðingu á tilskipun Evrópusambandsins um vernd dýra sem notuð eru í vísindaskyni.
Hafna því að um dýratilraun sé að ræða
Ísteka var upplýst um ákvörðun ráðherra í september í fyrra og krefst þess fyrir dómi að viðurkennt verði að ákvörðun matvælaráðherra hafi verið óheimil.
„Félagið byggir einkum á því að starfsemi tengd blóðnytjum úr fylfullum hryssum feli ekki í sér dýratilraun heldur sé landbúnaðarframleiðsla til afurðanýtingar sem hafi verið framkvæmd með óbreyttum hætti til áratuga,“ segir Peter Dalmay, lögmaður Ísteka í málinu í samtali við Bændablaðið.
Þannig eigi reglugerð um dýratilraunir ekki við um starfsemina og matvælaráðherra hafi því skort lagaheimild til að fella hana þar undir. Ákvörðunin feli jafnframt í sér íþyngjandi höft á stjórnarskrárvörðu atvinnufrelsi félagsins sem hefði þurft að byggja á málefnalegum forsendum, auk þess sem meðalhófs hafi ekki verið gætt við töku ákvörðunarinnar og gengið mun lengra en nauðsyn hafi borið til.
Mörg störf tapist
Bændasamtökin sögðu í nóvember að „mikil óvissa hafi skapast um starfsemina auk þess sem ákvörðunin er líkleg til að skapa bæði íþyngjandi og ósanngjarnar afleiðingar fyrir bændur og þá starfsmenn í þeim afleiddu störfum sem koma að starfseminni“.
Blóðmerahald fari fram á 90 stöðum og blóð tekið úr um 5.000 hryssum. Umfangið gefi til kynna hversu mörg störf myndu tapast.
„Sú starfsemi sem hér um ræðir hefur verið stunduð í hartnær 50 ár og verður rakin til rannsókna frá 5. og 6. áratug 20. aldar, svo auðveldlega er hægt að rökstyðja að atvinnugreinin falli undir starfsvenjur í landbúnaði og á því reglugerð nr. 460/2017 ekki við um blóðtöku úr fylfullum hryssum,“ segir meðal annars í áliti Bændasamtakanna frá í nóvember.