Á annarri hendi í gegnum lífið eftir hræðilegt slys Auður Ösp Guðmundsdóttir skrifar 18. febrúar 2024 08:39 Ingibjörg hefur í langan tíma reynt að fá botn í málið, sem breytti lífi hennar til frambúðar. vísir/vilhelm Ingibjörg Ólafsdóttir var sextán ára starfstúlka í hraðfrystihúsi í Sandgerði þegar hún varð fyrir alvarlegu vinnuslysi. Þetta var árið 1977. Afleiðingarnar voru þær að fjarlægja þurfti af henni hægri handlegginn ofan við olnboga og lífið varð aldrei samt. Síðan er liðin tæplega hálf öld og Ingibjörg segir málið óuppgert enda átti að vera óhugsandi að slysið myndi gerast hefði öryggisbúnaður notaður. Þrátt fyrir að rannsókn lögreglu og Vinnueftirlits ríkisins hefði leitt í ljós að um augljósa vanrækslu var að ræða af hálfu fyrirtækisins var enginn láta sæta ábyrgð. Ingibjörgu voru greiddar slysabætur sem voru andvirði einnar bifreiðar. Á þessum tíma var Ingibjörg að eigin sögn ómótaður unglingur, sem gerði sér enga grein fyrir afleiðingum málsins, og upplifun hennar er sú að það hafi verið nýtt til að afgreiða málið á snuðrulausan hátt. Ingibjörg varð fyrir slysinu þar sem hún vann á svokallaðri marningsvél. Þetta reyndist ekki vera fyrsta, og heldur ekki seinasta skiptið sem alvarlegt vinnuslys varð við störf á slíkri vél hér á landi. Fyrir utan Ingibjörgu er vitað um sjö tilvik á árunum 1973 til 2013 þar sem einstaklingar hafa hlotið alvarlegt og langvarandi líkamlegt tjón af völdum vélarinnar. Marningsvélar eru enn í notkun í fiskvinnslustöðvum víða um land. Ingibjörg hefur alla tíð átt erfitt með að sætta sig við hvernig mál hennar var afgreitt. Hún hefur oftar en einu sinni reynt að hafa uppi á gögnum varðandi málið, í því skyni að komast nánar til botns í því. Það hefur hins vegar reynst allt annað en auðvelt. Árið 1978 ræddi fréttamaður RÚV við Ingibjörgu um slysið, afgreiðsluna á málinu og eftirmála þess. Fyrsta „alvöru“ vinnan Ingibjörg ólst upp í níu systkina hópi og var yngsta dóttirin. Fjölskyldan bjó fyrst í Kópavogi, svo Garðahreppi og flutti síðan til Sandgerðis þegar Ingibjörg var fimmtán ára. „Pabbi var trillukarl og mamma var heima með okkur krakkana. Það snerist allt um fiskinn á þessum tíma; strákarnir fóru á sjóinn og stelpurnar unnu í fiskinum.“ Hún var 14 ára þegar hún vann fyrst hálft sumar í frystihúsi Miðnes h.f. í Sandgerði. „Og ég man að þetta var alveg smá upphefð, að vera þarna 14 ára og fara í „alvöru vinnu“ sem var ekki unglingavinnan. Ég vann svo í fiskinum allt sumarið þegar ég var fimmtán ára og ákvað að halda áfram inn í veturinn þegar foreldrar mínir fluttu í plássið um haustið, í stað þess klára síðasta árið í grunnskóla. Ég fór sum sé alfarið að vinna í fiskinum fimmtán ára gömul.“ Þessi mynd var tekin af Ingibjörgu árið 1975, tveimur árum fyrir slysið sem breytti lífi hennar.Aðsend Þetta var á áttunda áratug seinustu aldar og tíðarandinn á Íslandi var ekki sá sami og í dag. „Það var alltaf svo mikil harka,“ segir Ingibjörg. Í frystihúsinu í Sandgerði unnu börn og unglingar alveg niður í 11 ára aldur, aðallega stúlkur. Svona var þetta; lífið í bænum snerist um fiskinn og frystihúsið. Við krakkarnir vorum ódýrt vinnuafl, og meðfærileg líka. Það var sjaldnast tekið mark á því ef við kvörtuðum yfir einhverju. Yfirleitt var þá reynt að koma ábyrgðinni yfir á okkur með einhverjum hætti. Maður sá það ekki fyrr en eftir á hvað þetta var óheilbrigt starfsumhverfi að alast upp í. Lífshættuleg vél Í frystihúsinu var svokölluð marningsvél, sem notuð var til að hakka beinagarða og annan afgang sem konurnar voru búnar að „skera úr“ fiskinum sem kallað var. Um er að ræða hættulega vél sem ekki er ætluð einstaklingum undir átján ára aldri. „Ég veit ekki hvaða reglur gilda um þetta í dag, en þarna var sjálfræðialdurinn 16 ár og ég hreinlega veit ekki hvort það var lögbrot að setja yngri börn en það á vélina. Ég var búin að vinna á henni frá því að ég var 14 ára. Ég er ekki frá því að þetta hafi verið hættulegasta vélin í húsinu.” Starfið við marningsvélina var leiðinlegt og tilbreytingarlaust og þar af leiðandi óvinsælt. Það voru því nánast alltaf ungu stelpurnar sem voru settar í það verk. Tveimur árum áður, árið 1975, hafði átt sér stað vinnuslys í öðru frystihúsi þar sem ung stúlka hafði misst hendina í marningsvél. Í lögregluskýrslum frá árinu 1977 má meðal annars finna ljósmyndir um marningsvélinni umræddu sem olli slysinu.Þjóðskjalasafn Íslands Árið 1972 hafði Öryggiseftirlit ríkisins fyrirskipað aukin búnað við vélar af þessari tegund, til að tryggja enn frekara öryggi þeirra sem störfuðu við þær. Gerð var krafa um að vélarnar skyldu hafa sérstaka öryggishlíf. Verkstjóri frystihússins, þar sem Ingibjörg starfaði, var yfirheyrður hjá lögreglu á sínum tíma, í kjölfar þess að Ingibjörg lenti í slysinu. Var hann þá spurður sérstaklega út í öryggisbúnaðinn. Kvaðst hann ekki hafa vitað um þetta atriði og ekki vitað að sá búnaður væri til í húsinu. Það reyndist hins vegar ekki vera rétt. Búnaðurinn var til staðar en var ekki í notkun. „Þessi vél var auðvitað bara lífshættuleg- og beinlínis ólögleg, af því að þessi búnaður var ekki til staðar. En vélin var engu að síður mönnuð af unglingum og börnum alveg niður í ellefu ára aldur,“ segir Ingibjörg. Við krakkarnir höfðum ekkert val, við vorum bara sett á þetta, án þess að hafa nokkurn þroska til að skilja þá hættu sem við vorum sett í. Eitt flakandi sár 4. apríl 1977 hófst eins og hver annar vinnudagur hjá Ingibjörgu í frystihúsinu. Upp úr hádegi byrjaði hún að vinna við marningsvélina. Helsta uppistaðan í þeim fiskafgangi sem fór í vélina voru beinagarðar og þunnildi. „Beinagarðarnir voru langir, mjóir og mjúkir, og þar af leiðandi flækstust þeir mjög auðveldlega í þeirri rist sem átti að nota yfir trektina þar sem fiskurinn fór ofan í vélina, en það var laus öryggisrist sem var sett saman úr mjóum teinum. Það gerði þessa grind gagnslausa. Við stelpurnar notuðum hana þess vegna sjaldan, helst ef það var mikið af þunnildum í körfunni, því þau sluppu í gegn á meðan beinagarðarnir gerðu það yfir höfuð bara ekki. Þegar svo stíflaðist í trektinni sjálfri þurfti að losa um trommluna eða herða á bandinu og í það verk átti að kalla á vélarmann.” Að sögn Ingibjargar höfðu starfstúlkurnar sem unnu á vélinni komist upp á lagið með að leysa sjálfar flækjuna úr vélinni, þar sem að uppteknu vélamennirnir urðu yfirleitt pirraðir þegar kallað var á þá. Og það var akkúrat það sem gerðist þennan örlagaríka dag. „Þegar ég byrjaði að vinna við marningsvélina, þá var ristin í trekkt hennar, en ég tók ristina fljótlega úr, þar sem mér fannst fiskurinn ganga illa í vélina, þegar ristin var í trekktinni. Það sem skeði í umrætt sinn var það að fiskurinn stíflaðist í trekt vélarinnar og þegar ég var að myndast við að losa stífluna þá flæktist ermahlífin sem ég var með á hendinni í trommlunni á vélinni, sem gengur einungis í eina átt. Sem þýddi að hendin mín fór líka í vélina. Ég togaði á móti, án árangurs. En mér tókst svo sjálfri að stöðva vélina áður en ég fór öll inn í hana.“ Starfsmaður, sem heyrði ópin í Ingibjörgu kom og aðstoðaði hana við að losa sig úr vélinni, en það var of seint. Fram kemur í skýrslu lögreglu sem rituð var á sínum tíma að þegar lögregla og sjúkrabifreið mættu á staðinn hafi verið búið að færa Ingibjörgu yfir í verkstjóraherbergið. „Stúlkan sat á stól í herberginu og var að mestu búið að stöðva blóðrennsli úr hægri hönd og handlegg,“ segir í skýrslunni en á öðrum stað segir að handleggurinn hafi verið mjög illa farinn og „að sjá eitt flakandi sár.“ Ingibjörg var flutt á sjúkrahús í Keflavík, og þaðan á Borgarspítalann í Reykjavík. Þar var metið að áverkar hennar væru svo miklir að fjarlæga þyrfti hluta hægri handleggs, um neðrihluta upphandleggs. „Eitt af því sem gerðist við þau ósjálfráðu viðbrögð mín að toga á móti afli vélarinnar var það að sinar og æðar í hendinni fóru í sundur,“ segir Ingibjörg sem segist samt hafa verið fegin þegar læknirinn sagði henni að hann þyrfti að fjarlægja hendina því hún hélt að við það myndi hún losna við þann óbærilegan sársauka sem hún upplifði. Það voru henni því mikil vonbrigði að vakna síðan upp eftir aðgerðina með sama sársauka, sem kom í ljós að tengdist taugakerfinu, en ekki hendinni sjálfri. Sárauki sem hún þurfti að læra að lifa með. Það var ekki fyrr en nýlega að Ingibjörgu tókst loksins að hafa uppi á lögregluskýrslum sem tengjast málinu hennar.Vísir/Vilhelm Smánarlegur bætur Rannsóknarlögreglan í Keflavík og Öryggiseftirlit ríkisins rannsökuðu málið á sínum tíma. Það var ekki fyrr en í seinasta mánuði að Ingibjörg fékk loks í hendur lögregluskýrslunar sem ritaðar voru. Sjálf man hún takmarkað eftir þessum tíma, og lesturinn var því sláandi. Í skýrslu Öryggiseftirlits Ríkisins frá því í október 1977 kemur fram að fyrrnefnd öryggishlíf hafi verið til í Miðnesi h.f. á sínum tíma „en af einhverjum ástæðum ekki notuð.“ Á öðrum stað í skýrslunni segir að það sé „óhugsandi sé að slys geti orðið við mötunartrekt á marningsvélum, sé réttur öryggisbúnaður notaður.“ Þrátt fyrir niðurstöðu lögreglurannsóknar voru afleiðingarnar engar fyrir vinnuveitenda Ingibjargar.Þjóðskjalasafn Íslands Ingibjörgu var úthlutað lögfræðing á sínum tíma til að gæta hagsmuna hennar í málinu. Tryggingastofnun ríkisins féllst að lokum á að greiða henni fullan örorkulífeyri. Lögfræðingur Ingibjargar sannfærði hana um að skrifa undir dómsátt sem kvað á um að hún fengi greiddar 4,3 milljónir króna í slysabætur. Ingibjörg minnist þess að það hafa verið tjáð á sínum tíma að eitt af því sem tekið var mið af við ákvörðun bótaupphæðinnar var sú staðreynd að hún var stúlka. Hefði hún verið piltur hefði hún fengið hærri bætur þar sem að þá hefði hún verið „fyrirvinna.“ Hafa ber í huga að þetta var á seinni hluta áttunda áratugarins. Líkt og Ingibjörg bendir á var fyrirtækið svo gott sem stikkfrí í málinu, og Vinnueftirlitið sömuleiðis. Ég man alltaf svo vel hvað pabbi var reiður yfir þessum málalokum. Eins og hann orðaði það, þá jafngildu þessar bætur andvirði einnar skóda bifreiðar. Ég var semsagt álitin álíka mikils virði og einn skódi. Hún segir þessa upphæð svo sannarlega hafa stutt við bakið á henni næstu tvö árin eða svo, en ekki mikið lengur en það. Hún segist aldrei hafa getað skilið hvernig lögfræðingur hennar fór að því að sannfæra hana, 16 ára unglingsstúlku, að samþykkja þessar málalyktir. „Ég sé það núna þegar ég horfi til baka að ég var bara krakki þarna. Ég gerði mér enga grein fyrir alvarleika málsins og afleiðingunum sem áttu eftir að verða af slysinu. Og allri þeirri vinnu sem ég átti eftir að þurfa að leggja á mig til að vinna mig út úr þessu. Ég geri mér grein fyrir því hvernig verðmætamat þessa tíma var og líka því að ég hefði komist örlítið hærra í því mati ef ég hefði fæðst sem strákur. En þetta er bara svo galið og þegar ég lít til baka þá get ég ekki annað en tekið ofan fyrir ungu stelpunni sem var endalaust dugleg við að bjarga sér.“ Ingibjörg tókst á við nýjan veruleika með að fara í hlutverk hetju.Aðsend Fór í hetjuhlutverkið Það var skiljanlega mikill viðsnúningur fyrir 16 ára unglingsstúlku að vera skyndilega orðin einni hendi fátækari. Á þessum tíma voru gervilimir ekki eins þróaðir í dag. Ingibjörg fékk gervihendi sem endaði strax uppi í skáp og var ekki dregin fram aftur. Það bæti ekki úr skák að á þessum tíma var samfélagið á Íslandi töluvert einsleitara en í dag. „Og maður skar sig auðvitað úr. Það var mikið gónt á mann, sérstaklega þegar ég fór til Reykjavíkur,” segir Ingibjörg. „Ég man eftir einu skipti þegar kona gekk út úr herbergi með miklum æjum og vanlíðunarstunum þegar ég kom þangað inn ásamt vinum mínum. Greyið konunni leið svo illa yfir nálægð minni með mína einu hendi og gat ekki falið það. Mér fannst þetta hrikalega hallærislegt en líka fyndið og ég vorkenndi konunni hreinlega yfir að vera svona viðkvæm.“ Ingibjörg leggur áherslu á að það séu áratugir síðan þetta gerðist og sem betur fer hafi framkoma af þessu tagi verið mikil undantekning. Flestir verið kurteisir við hana. En höfnunin kom líka stundum út í kurteislegri þögn. „Eins og til dæmis þegar ég sótti um vinnu og fékk engin svör. Ég gekk einu sinni svo langt að fara fram á að fá að vinna kauplaust í einn dag til að sýna fram á að ég hafi sótt um þá vinnu af því að ég taldi mig ráða við hana. Ég fékk að taka þann vinnudag, fékk hann borgaðan og ég fékk vinnuna. En auðvitað fór ég fram úr mér í þeirri vinnu, annað var óumflýjanlegt,” rifjar hún upp. „Ég fékk auðvitað athygli, og meðaumkun, út á höndina en ég vildi alls ekki vera eitthvað fórnarlamb. Einhvern tímann eftir slysið hitti ég lækninn sem sinnti mér fyrst á slysstað og hann sagði við mig að ég væri sú allra hraustasta og heilbrigðasta manneskja sem hann hefði hitt fyrir á lífsleiðinni. Þessi orð hans greiptust í mig, urðu mitt leiðarljós og hjálpuðu mér að snúa þessu upp í hetjuskap. Ég tók þetta á hörkunni og vildi ekki láta vorkenna mér. Ég hafði alltaf verið mikill orkubolti, dugleg og drífandi og það spilaði inn í líka. Það gerði það auðveldara að fara inn í hetjuhlutverkið. Sem hjálpaði mér en vann líka gegn mér. En það var reyndar merkilegt hvað ég vandist þessu fljótt, og ég komst mjög fljótt upp á lagið með að skrifa með vinstri hendinni og nota hana.“ Þrátt fyrir fötlunina hefur Ingibjörg látið fátt stoppa sig.Aðsend Vaknaði endurtekið upp við martröð Ingibjörg glímdi við áfallastreitu í mörg ár eftir slysið, en eins og gefur að skilja var ekkert í boði sem hét áfallahjálp á þessum tíma. „Í mörg ár á eftir vaknaði ég oft upp við þá martröð að ég væri öll að fara inn í vélina, því aðbúnaðurinn var einfaldlega þannig að það var mjög líklegt að geta gerst. Svo ég var í raun heppin að missa bara aðra höndina en ekki lífið sjálft.“ Slysið í frystihúsinu var ekki fyrsta og ekki seinasta áfallið sem Ingibjörg átti eftir að ganga í gegnum á lífsleiðinni. „Ég varð fyrir kynferðislegri misnotkun þegar ég var barn, af hálfu manns sem tengdist fjölskyldunni minni. Og eins og venjan var á þessum tíma þá var allt þaggað niður og svo bara haldið áfram eins og ekki væri. Þannig að þegar slysið varð þá var ég fyrir löngu búin að búa til einhverskonar brynju.“ Eftir slysið fór Ingibjörg í lýðháskóla í Skálholti þar sem hún undi sér vel. „Og þá komst ég líka að því að ég gat vel lært. En ég var samt ekki tilbúin að fara í skóla og ljúka framhaldsnámi. Ég gerði nokkrar tilraunir til þess. Þetta var erfið staða, af því að það þýddi að ég þurfti að fara út á vinnumarkaðinn, og þar var lítið annað í boði en líkamleg störf.“ Lífið tók nýja stefnu Ingibjörg vann við ýmis störf næstu árin; hún starfaði meðal annars í verslun, á bensínstöð og meira að segja við fiskvinnslu. Það breytti lífi hennar til hins betra þegar dóttir hennar Soffía kom í heiminn. „Það var algjör blessun. Við höfum alltaf verið bara tvær, og það var skiljanlega ekki alltaf auðvelt að vera einstæð móðir, það var oft mikið basl,” segir Ingibjörg en samband þeirra mæðgna hefur alltaf tíð verið einstakt. Mæðgurnar Ingibjörg og Soffía hafa gengið í gegnum ýmislegt saman og eru einstaklega nánar.Aðsend En þegar Ingibjörg á þrítugu urðu ákveðin tímamót í lífi hennar. „Ég var búin að harka af mér og keyra mig áfram endalaust í öll þessi ár, og byrgja allt inni. Auðvitað kom þá bara að því að ég hrundi, ég fékk hreinlega taugaáfall. Og ég í kjölfarið leitaði ég mér loksins hjálpar. Ég komst ekki lengur hjá því að mæta sjálfri mér. Og þvílíkur léttir sem það var að uppgötva að það var hægt að fá góða hjálp til að fara í þá vinnu.“ Í kjölfarið tók líf Ingibjargar nýja, og jákvæða stefnu. Sjálfsvinnan tók á og tók langan tíma en skilaði Ingibjörgu miklum lífsgæðum. Hún lauk seinna meir háskólanámi og starfar í dag á Landspítalanum. Og í gegnum tíðina hefur hún notið lífsins til hins ítrasta þrátt fyrir fötlunina; hún var til að mynda hluti af mjög öflugum leiklistarhóp sem varð til í Kramhúsinu upp úr 1990 og var mjög virkur í leikhússlífinu í mörg ár. Og hún er líklega fyrsti íslenski golfarinn til að spila með gervihönd sem er sérsniðin að íþróttinni. „Og ég hef alltaf verið mjög aktíf og virk, og verið dugleg að stunda útivist og hreyfingu. Ég myndi segja að í heilt yfir litið hafi mér gengið mjög vel, en auðvitað hefur þetta verið basl, oft á tíðum. En maður notar einfaldlega það sem maður hefur!“ Þrautseigja Ingibjargar og viðhorf hennar til lífsins er aðdáunarvert.Vísir/Vilhelm Þráir að loka málinu Á sínum tíma, upp úr þrítugu, byrjaði Ingibjörg síðan einnig að horfast í augu við aðra fortíðardrauga; þar á meðal slysið örlagaríka í frystihúsinu. Hún vildi gera þann tíma almennilega upp. Og til þess að geta gert það þá þurfti hún að koma höndum yfir skýrslur og öll gögn sem tengdust málinu. „Það var ekki fyrr en þarna sem að ég var í alvörunni tilbúin til þess. Ég vildi komast til botns í þessu, og ég vissi að það var eitthvað sem ég yrði að gera. Þetta var alltaf að naga mig. Þessi spurning hefur alltaf brunnið á mér; Var ég ekki meira virði en þetta? Var ég ekki meira virði en einn skódi, eins og pabbi sagði? Og mér fannst ég verða að hafa uppi á þessum gögnum, því þá myndi ég allavega hafa eitthvað að vinna úr, eitthvað til að vinna út frá.“ Þess ber að gera að það var á fyrri hluta tíunda áratugarins sem Ingibjörg hóf fyrst leitina. Tölvu-og upplýsingakerfi voru töluvert frumstæðari en í dag og það var ekki hlaupið að því að nálgast áratugagömul gögn. Ingibjörg fékk þær upplýsingar frá lögfræðingnum sínum, sem nú er látinn, að þar sem að málið hennar væri fyrnt þá væru málsgögnin ekki lengur aðgengileg; það væri búið að eyða þeim. Dæmi um augljóst klúður Ingibjörg setti málið loks til hliðar en á seinasta ári kviknaði hjá henni löngun hjá til að fara aftur af stað í leitinni. Hún heyrði út undan sér að málið hennar hefði verið notað sem sýnidæmi við kennslu í lagadeild Háskóla Íslands, sem dæmi um augljóst klúður. „Ég spurðist fyrir um það, og fékk það svosem ekki staðfest. En þetta kveikti á einhverju hjá mér. Ég fann það bara svo sterkt að þetta var eitthvað sem ég yrði að fá botn í. Og ég hugsaði með mér að þar sem að tæknin er orðin aðeins framþróaðri í dag heldur en fyrir þrjátíu árum, þá gæti það kannski hjálpað til. Ég þarf að fá „closure“, mig vantar að fá lokun á þetta mál.“ Ingibjörg hyggst ekki gefast upp í leitinni.Vísir/Vilhelm Eitt af því sem Ingibjörg hefur undir höndum er fyrrnefnd upptaka úr fréttatíma RÚV frá árinu 1978. Hún setti sig einnig í samband við Þjóðskjalasafnið sem hefur verið henni innan handar í leitinni. Það dró til tíðina í seinasta mánuði en þá fékk hún loksins í hendur lögregluskýrslur sem ritaðar voru í tengslum við slysið á sínum tíma. „Og það var allt annað en auðvelt að lesa þetta eftir öll þessi ár.“ En Ingibjörg vill helst af öllu ná að komast yfir gögn varðandi dómsáttina sem var gerð í máli hennar á sínum tíma. Og það virðist vera hægara sagt en gert. Hún er þó ekki tilbúin að gefast upp. „Ég vil geta haft uppi á öllum gögnum sem til eru í kringum málið, til að geta skoðað það ofan í kjölinn. Ég vil gera þetta upp, í eitt skipti fyrir öll. Til að geta sleppt, og sætt mig við örlög mín. Þjóðskjalasafnið er ekki búið að gefast upp á leitinni með mér og ég hef fulla trú á að á endanum munum við finna það sem við leitum að.“ Vinnumarkaður Vinnuslys Helgarviðtal Suðurnesjabær Mest lesið Kosningavaktin: Landsmenn kjósa sér nýtt þing Innlent Kanónurnar sem eru að hverfa Innlent Lokatölur í Reykjavík suður: Fyrrverandi borgarstjóri og ritstjóri á þing Innlent Tárin streymdu þegar María Rut mældist inni Innlent Lokatölur úr Reykjavík norður: Stórsigur Samfylkingarinnar Innlent Ungur maður og spenntur fyrir framtíðinni Innlent Stefnir í að VG þurrkist út af þingi Innlent „Ég get ekki hugsað mér að fleiri börn lendi í honum“ Innlent Vísbending um að þetta séu „jarðskjálftakosningar“ Innlent „Ég byrja harður og svo er ég bara grillaður í restina“ Innlent Fleiri fréttir Lokatölur úr Suðurkjördæmi: Sigur Flokks fólksins „Ég byrja harður og svo er ég bara grillaður í restina“ Reyndi að brjótast inn með exi Lokatölur úr Reykjavík norður: Stórsigur Samfylkingarinnar Lokatölur í Reykjavík suður: Fyrrverandi borgarstjóri og ritstjóri á þing Kanónurnar sem eru að hverfa Ungur maður og spenntur fyrir framtíðinni Tárin streymdu þegar María Rut mældist inni Flokkurinn verði að líta inn á við Stefnir í að flokkunum fækki um tvo Flokkur fólksins í gríðarlegri sókn í Norðvesturkjördæmi Vísbending um að þetta séu „jarðskjálftakosningar“ Samfylkingin langstærst í kjördæmi Kristrúnar Stefnir í að VG þurrkist út af þingi Gríðarlega mikið fylgi sem dettur niður dautt Ljóst að þetta yrði brekka fyrir Framsókn Sjálfstæðisflokkur og Samfylking ná bæði fjórum inn í Kraganum „Ég veit ekki hvort ég er að koma eða fara“ Merkir hægribylgju en ekki vonbrigði Glaður maður en býst við batnandi tölum Samfylkingin og Flokkur fólksins bæta miklu við sig Sagði sínu fólki að tala ekki illa um aðra flokka Trúir því að fólk sé að detta VG megin í kjörklefanum Vegabréfið fór með atkvæðinu í kjörkassann „Ég trúi því að þjóðin sé að opna augun“ Viðbúið að talning tefjist í einhverjum kjördæmum Þriggja bíla árekstur og mikil umferðarteppa Kjördagur að kveldi kominn en nóttin rétt að byrja Tveir fluttir með þyrlu vegna rútuslyssins og einn fluttur vegna veikinda Þyrlan kölluð út vegna rútuslyss Sjá meira
Þrátt fyrir að rannsókn lögreglu og Vinnueftirlits ríkisins hefði leitt í ljós að um augljósa vanrækslu var að ræða af hálfu fyrirtækisins var enginn láta sæta ábyrgð. Ingibjörgu voru greiddar slysabætur sem voru andvirði einnar bifreiðar. Á þessum tíma var Ingibjörg að eigin sögn ómótaður unglingur, sem gerði sér enga grein fyrir afleiðingum málsins, og upplifun hennar er sú að það hafi verið nýtt til að afgreiða málið á snuðrulausan hátt. Ingibjörg varð fyrir slysinu þar sem hún vann á svokallaðri marningsvél. Þetta reyndist ekki vera fyrsta, og heldur ekki seinasta skiptið sem alvarlegt vinnuslys varð við störf á slíkri vél hér á landi. Fyrir utan Ingibjörgu er vitað um sjö tilvik á árunum 1973 til 2013 þar sem einstaklingar hafa hlotið alvarlegt og langvarandi líkamlegt tjón af völdum vélarinnar. Marningsvélar eru enn í notkun í fiskvinnslustöðvum víða um land. Ingibjörg hefur alla tíð átt erfitt með að sætta sig við hvernig mál hennar var afgreitt. Hún hefur oftar en einu sinni reynt að hafa uppi á gögnum varðandi málið, í því skyni að komast nánar til botns í því. Það hefur hins vegar reynst allt annað en auðvelt. Árið 1978 ræddi fréttamaður RÚV við Ingibjörgu um slysið, afgreiðsluna á málinu og eftirmála þess. Fyrsta „alvöru“ vinnan Ingibjörg ólst upp í níu systkina hópi og var yngsta dóttirin. Fjölskyldan bjó fyrst í Kópavogi, svo Garðahreppi og flutti síðan til Sandgerðis þegar Ingibjörg var fimmtán ára. „Pabbi var trillukarl og mamma var heima með okkur krakkana. Það snerist allt um fiskinn á þessum tíma; strákarnir fóru á sjóinn og stelpurnar unnu í fiskinum.“ Hún var 14 ára þegar hún vann fyrst hálft sumar í frystihúsi Miðnes h.f. í Sandgerði. „Og ég man að þetta var alveg smá upphefð, að vera þarna 14 ára og fara í „alvöru vinnu“ sem var ekki unglingavinnan. Ég vann svo í fiskinum allt sumarið þegar ég var fimmtán ára og ákvað að halda áfram inn í veturinn þegar foreldrar mínir fluttu í plássið um haustið, í stað þess klára síðasta árið í grunnskóla. Ég fór sum sé alfarið að vinna í fiskinum fimmtán ára gömul.“ Þessi mynd var tekin af Ingibjörgu árið 1975, tveimur árum fyrir slysið sem breytti lífi hennar.Aðsend Þetta var á áttunda áratug seinustu aldar og tíðarandinn á Íslandi var ekki sá sami og í dag. „Það var alltaf svo mikil harka,“ segir Ingibjörg. Í frystihúsinu í Sandgerði unnu börn og unglingar alveg niður í 11 ára aldur, aðallega stúlkur. Svona var þetta; lífið í bænum snerist um fiskinn og frystihúsið. Við krakkarnir vorum ódýrt vinnuafl, og meðfærileg líka. Það var sjaldnast tekið mark á því ef við kvörtuðum yfir einhverju. Yfirleitt var þá reynt að koma ábyrgðinni yfir á okkur með einhverjum hætti. Maður sá það ekki fyrr en eftir á hvað þetta var óheilbrigt starfsumhverfi að alast upp í. Lífshættuleg vél Í frystihúsinu var svokölluð marningsvél, sem notuð var til að hakka beinagarða og annan afgang sem konurnar voru búnar að „skera úr“ fiskinum sem kallað var. Um er að ræða hættulega vél sem ekki er ætluð einstaklingum undir átján ára aldri. „Ég veit ekki hvaða reglur gilda um þetta í dag, en þarna var sjálfræðialdurinn 16 ár og ég hreinlega veit ekki hvort það var lögbrot að setja yngri börn en það á vélina. Ég var búin að vinna á henni frá því að ég var 14 ára. Ég er ekki frá því að þetta hafi verið hættulegasta vélin í húsinu.” Starfið við marningsvélina var leiðinlegt og tilbreytingarlaust og þar af leiðandi óvinsælt. Það voru því nánast alltaf ungu stelpurnar sem voru settar í það verk. Tveimur árum áður, árið 1975, hafði átt sér stað vinnuslys í öðru frystihúsi þar sem ung stúlka hafði misst hendina í marningsvél. Í lögregluskýrslum frá árinu 1977 má meðal annars finna ljósmyndir um marningsvélinni umræddu sem olli slysinu.Þjóðskjalasafn Íslands Árið 1972 hafði Öryggiseftirlit ríkisins fyrirskipað aukin búnað við vélar af þessari tegund, til að tryggja enn frekara öryggi þeirra sem störfuðu við þær. Gerð var krafa um að vélarnar skyldu hafa sérstaka öryggishlíf. Verkstjóri frystihússins, þar sem Ingibjörg starfaði, var yfirheyrður hjá lögreglu á sínum tíma, í kjölfar þess að Ingibjörg lenti í slysinu. Var hann þá spurður sérstaklega út í öryggisbúnaðinn. Kvaðst hann ekki hafa vitað um þetta atriði og ekki vitað að sá búnaður væri til í húsinu. Það reyndist hins vegar ekki vera rétt. Búnaðurinn var til staðar en var ekki í notkun. „Þessi vél var auðvitað bara lífshættuleg- og beinlínis ólögleg, af því að þessi búnaður var ekki til staðar. En vélin var engu að síður mönnuð af unglingum og börnum alveg niður í ellefu ára aldur,“ segir Ingibjörg. Við krakkarnir höfðum ekkert val, við vorum bara sett á þetta, án þess að hafa nokkurn þroska til að skilja þá hættu sem við vorum sett í. Eitt flakandi sár 4. apríl 1977 hófst eins og hver annar vinnudagur hjá Ingibjörgu í frystihúsinu. Upp úr hádegi byrjaði hún að vinna við marningsvélina. Helsta uppistaðan í þeim fiskafgangi sem fór í vélina voru beinagarðar og þunnildi. „Beinagarðarnir voru langir, mjóir og mjúkir, og þar af leiðandi flækstust þeir mjög auðveldlega í þeirri rist sem átti að nota yfir trektina þar sem fiskurinn fór ofan í vélina, en það var laus öryggisrist sem var sett saman úr mjóum teinum. Það gerði þessa grind gagnslausa. Við stelpurnar notuðum hana þess vegna sjaldan, helst ef það var mikið af þunnildum í körfunni, því þau sluppu í gegn á meðan beinagarðarnir gerðu það yfir höfuð bara ekki. Þegar svo stíflaðist í trektinni sjálfri þurfti að losa um trommluna eða herða á bandinu og í það verk átti að kalla á vélarmann.” Að sögn Ingibjargar höfðu starfstúlkurnar sem unnu á vélinni komist upp á lagið með að leysa sjálfar flækjuna úr vélinni, þar sem að uppteknu vélamennirnir urðu yfirleitt pirraðir þegar kallað var á þá. Og það var akkúrat það sem gerðist þennan örlagaríka dag. „Þegar ég byrjaði að vinna við marningsvélina, þá var ristin í trekkt hennar, en ég tók ristina fljótlega úr, þar sem mér fannst fiskurinn ganga illa í vélina, þegar ristin var í trekktinni. Það sem skeði í umrætt sinn var það að fiskurinn stíflaðist í trekt vélarinnar og þegar ég var að myndast við að losa stífluna þá flæktist ermahlífin sem ég var með á hendinni í trommlunni á vélinni, sem gengur einungis í eina átt. Sem þýddi að hendin mín fór líka í vélina. Ég togaði á móti, án árangurs. En mér tókst svo sjálfri að stöðva vélina áður en ég fór öll inn í hana.“ Starfsmaður, sem heyrði ópin í Ingibjörgu kom og aðstoðaði hana við að losa sig úr vélinni, en það var of seint. Fram kemur í skýrslu lögreglu sem rituð var á sínum tíma að þegar lögregla og sjúkrabifreið mættu á staðinn hafi verið búið að færa Ingibjörgu yfir í verkstjóraherbergið. „Stúlkan sat á stól í herberginu og var að mestu búið að stöðva blóðrennsli úr hægri hönd og handlegg,“ segir í skýrslunni en á öðrum stað segir að handleggurinn hafi verið mjög illa farinn og „að sjá eitt flakandi sár.“ Ingibjörg var flutt á sjúkrahús í Keflavík, og þaðan á Borgarspítalann í Reykjavík. Þar var metið að áverkar hennar væru svo miklir að fjarlæga þyrfti hluta hægri handleggs, um neðrihluta upphandleggs. „Eitt af því sem gerðist við þau ósjálfráðu viðbrögð mín að toga á móti afli vélarinnar var það að sinar og æðar í hendinni fóru í sundur,“ segir Ingibjörg sem segist samt hafa verið fegin þegar læknirinn sagði henni að hann þyrfti að fjarlægja hendina því hún hélt að við það myndi hún losna við þann óbærilegan sársauka sem hún upplifði. Það voru henni því mikil vonbrigði að vakna síðan upp eftir aðgerðina með sama sársauka, sem kom í ljós að tengdist taugakerfinu, en ekki hendinni sjálfri. Sárauki sem hún þurfti að læra að lifa með. Það var ekki fyrr en nýlega að Ingibjörgu tókst loksins að hafa uppi á lögregluskýrslum sem tengjast málinu hennar.Vísir/Vilhelm Smánarlegur bætur Rannsóknarlögreglan í Keflavík og Öryggiseftirlit ríkisins rannsökuðu málið á sínum tíma. Það var ekki fyrr en í seinasta mánuði að Ingibjörg fékk loks í hendur lögregluskýrslunar sem ritaðar voru. Sjálf man hún takmarkað eftir þessum tíma, og lesturinn var því sláandi. Í skýrslu Öryggiseftirlits Ríkisins frá því í október 1977 kemur fram að fyrrnefnd öryggishlíf hafi verið til í Miðnesi h.f. á sínum tíma „en af einhverjum ástæðum ekki notuð.“ Á öðrum stað í skýrslunni segir að það sé „óhugsandi sé að slys geti orðið við mötunartrekt á marningsvélum, sé réttur öryggisbúnaður notaður.“ Þrátt fyrir niðurstöðu lögreglurannsóknar voru afleiðingarnar engar fyrir vinnuveitenda Ingibjargar.Þjóðskjalasafn Íslands Ingibjörgu var úthlutað lögfræðing á sínum tíma til að gæta hagsmuna hennar í málinu. Tryggingastofnun ríkisins féllst að lokum á að greiða henni fullan örorkulífeyri. Lögfræðingur Ingibjargar sannfærði hana um að skrifa undir dómsátt sem kvað á um að hún fengi greiddar 4,3 milljónir króna í slysabætur. Ingibjörg minnist þess að það hafa verið tjáð á sínum tíma að eitt af því sem tekið var mið af við ákvörðun bótaupphæðinnar var sú staðreynd að hún var stúlka. Hefði hún verið piltur hefði hún fengið hærri bætur þar sem að þá hefði hún verið „fyrirvinna.“ Hafa ber í huga að þetta var á seinni hluta áttunda áratugarins. Líkt og Ingibjörg bendir á var fyrirtækið svo gott sem stikkfrí í málinu, og Vinnueftirlitið sömuleiðis. Ég man alltaf svo vel hvað pabbi var reiður yfir þessum málalokum. Eins og hann orðaði það, þá jafngildu þessar bætur andvirði einnar skóda bifreiðar. Ég var semsagt álitin álíka mikils virði og einn skódi. Hún segir þessa upphæð svo sannarlega hafa stutt við bakið á henni næstu tvö árin eða svo, en ekki mikið lengur en það. Hún segist aldrei hafa getað skilið hvernig lögfræðingur hennar fór að því að sannfæra hana, 16 ára unglingsstúlku, að samþykkja þessar málalyktir. „Ég sé það núna þegar ég horfi til baka að ég var bara krakki þarna. Ég gerði mér enga grein fyrir alvarleika málsins og afleiðingunum sem áttu eftir að verða af slysinu. Og allri þeirri vinnu sem ég átti eftir að þurfa að leggja á mig til að vinna mig út úr þessu. Ég geri mér grein fyrir því hvernig verðmætamat þessa tíma var og líka því að ég hefði komist örlítið hærra í því mati ef ég hefði fæðst sem strákur. En þetta er bara svo galið og þegar ég lít til baka þá get ég ekki annað en tekið ofan fyrir ungu stelpunni sem var endalaust dugleg við að bjarga sér.“ Ingibjörg tókst á við nýjan veruleika með að fara í hlutverk hetju.Aðsend Fór í hetjuhlutverkið Það var skiljanlega mikill viðsnúningur fyrir 16 ára unglingsstúlku að vera skyndilega orðin einni hendi fátækari. Á þessum tíma voru gervilimir ekki eins þróaðir í dag. Ingibjörg fékk gervihendi sem endaði strax uppi í skáp og var ekki dregin fram aftur. Það bæti ekki úr skák að á þessum tíma var samfélagið á Íslandi töluvert einsleitara en í dag. „Og maður skar sig auðvitað úr. Það var mikið gónt á mann, sérstaklega þegar ég fór til Reykjavíkur,” segir Ingibjörg. „Ég man eftir einu skipti þegar kona gekk út úr herbergi með miklum æjum og vanlíðunarstunum þegar ég kom þangað inn ásamt vinum mínum. Greyið konunni leið svo illa yfir nálægð minni með mína einu hendi og gat ekki falið það. Mér fannst þetta hrikalega hallærislegt en líka fyndið og ég vorkenndi konunni hreinlega yfir að vera svona viðkvæm.“ Ingibjörg leggur áherslu á að það séu áratugir síðan þetta gerðist og sem betur fer hafi framkoma af þessu tagi verið mikil undantekning. Flestir verið kurteisir við hana. En höfnunin kom líka stundum út í kurteislegri þögn. „Eins og til dæmis þegar ég sótti um vinnu og fékk engin svör. Ég gekk einu sinni svo langt að fara fram á að fá að vinna kauplaust í einn dag til að sýna fram á að ég hafi sótt um þá vinnu af því að ég taldi mig ráða við hana. Ég fékk að taka þann vinnudag, fékk hann borgaðan og ég fékk vinnuna. En auðvitað fór ég fram úr mér í þeirri vinnu, annað var óumflýjanlegt,” rifjar hún upp. „Ég fékk auðvitað athygli, og meðaumkun, út á höndina en ég vildi alls ekki vera eitthvað fórnarlamb. Einhvern tímann eftir slysið hitti ég lækninn sem sinnti mér fyrst á slysstað og hann sagði við mig að ég væri sú allra hraustasta og heilbrigðasta manneskja sem hann hefði hitt fyrir á lífsleiðinni. Þessi orð hans greiptust í mig, urðu mitt leiðarljós og hjálpuðu mér að snúa þessu upp í hetjuskap. Ég tók þetta á hörkunni og vildi ekki láta vorkenna mér. Ég hafði alltaf verið mikill orkubolti, dugleg og drífandi og það spilaði inn í líka. Það gerði það auðveldara að fara inn í hetjuhlutverkið. Sem hjálpaði mér en vann líka gegn mér. En það var reyndar merkilegt hvað ég vandist þessu fljótt, og ég komst mjög fljótt upp á lagið með að skrifa með vinstri hendinni og nota hana.“ Þrátt fyrir fötlunina hefur Ingibjörg látið fátt stoppa sig.Aðsend Vaknaði endurtekið upp við martröð Ingibjörg glímdi við áfallastreitu í mörg ár eftir slysið, en eins og gefur að skilja var ekkert í boði sem hét áfallahjálp á þessum tíma. „Í mörg ár á eftir vaknaði ég oft upp við þá martröð að ég væri öll að fara inn í vélina, því aðbúnaðurinn var einfaldlega þannig að það var mjög líklegt að geta gerst. Svo ég var í raun heppin að missa bara aðra höndina en ekki lífið sjálft.“ Slysið í frystihúsinu var ekki fyrsta og ekki seinasta áfallið sem Ingibjörg átti eftir að ganga í gegnum á lífsleiðinni. „Ég varð fyrir kynferðislegri misnotkun þegar ég var barn, af hálfu manns sem tengdist fjölskyldunni minni. Og eins og venjan var á þessum tíma þá var allt þaggað niður og svo bara haldið áfram eins og ekki væri. Þannig að þegar slysið varð þá var ég fyrir löngu búin að búa til einhverskonar brynju.“ Eftir slysið fór Ingibjörg í lýðháskóla í Skálholti þar sem hún undi sér vel. „Og þá komst ég líka að því að ég gat vel lært. En ég var samt ekki tilbúin að fara í skóla og ljúka framhaldsnámi. Ég gerði nokkrar tilraunir til þess. Þetta var erfið staða, af því að það þýddi að ég þurfti að fara út á vinnumarkaðinn, og þar var lítið annað í boði en líkamleg störf.“ Lífið tók nýja stefnu Ingibjörg vann við ýmis störf næstu árin; hún starfaði meðal annars í verslun, á bensínstöð og meira að segja við fiskvinnslu. Það breytti lífi hennar til hins betra þegar dóttir hennar Soffía kom í heiminn. „Það var algjör blessun. Við höfum alltaf verið bara tvær, og það var skiljanlega ekki alltaf auðvelt að vera einstæð móðir, það var oft mikið basl,” segir Ingibjörg en samband þeirra mæðgna hefur alltaf tíð verið einstakt. Mæðgurnar Ingibjörg og Soffía hafa gengið í gegnum ýmislegt saman og eru einstaklega nánar.Aðsend En þegar Ingibjörg á þrítugu urðu ákveðin tímamót í lífi hennar. „Ég var búin að harka af mér og keyra mig áfram endalaust í öll þessi ár, og byrgja allt inni. Auðvitað kom þá bara að því að ég hrundi, ég fékk hreinlega taugaáfall. Og ég í kjölfarið leitaði ég mér loksins hjálpar. Ég komst ekki lengur hjá því að mæta sjálfri mér. Og þvílíkur léttir sem það var að uppgötva að það var hægt að fá góða hjálp til að fara í þá vinnu.“ Í kjölfarið tók líf Ingibjargar nýja, og jákvæða stefnu. Sjálfsvinnan tók á og tók langan tíma en skilaði Ingibjörgu miklum lífsgæðum. Hún lauk seinna meir háskólanámi og starfar í dag á Landspítalanum. Og í gegnum tíðina hefur hún notið lífsins til hins ítrasta þrátt fyrir fötlunina; hún var til að mynda hluti af mjög öflugum leiklistarhóp sem varð til í Kramhúsinu upp úr 1990 og var mjög virkur í leikhússlífinu í mörg ár. Og hún er líklega fyrsti íslenski golfarinn til að spila með gervihönd sem er sérsniðin að íþróttinni. „Og ég hef alltaf verið mjög aktíf og virk, og verið dugleg að stunda útivist og hreyfingu. Ég myndi segja að í heilt yfir litið hafi mér gengið mjög vel, en auðvitað hefur þetta verið basl, oft á tíðum. En maður notar einfaldlega það sem maður hefur!“ Þrautseigja Ingibjargar og viðhorf hennar til lífsins er aðdáunarvert.Vísir/Vilhelm Þráir að loka málinu Á sínum tíma, upp úr þrítugu, byrjaði Ingibjörg síðan einnig að horfast í augu við aðra fortíðardrauga; þar á meðal slysið örlagaríka í frystihúsinu. Hún vildi gera þann tíma almennilega upp. Og til þess að geta gert það þá þurfti hún að koma höndum yfir skýrslur og öll gögn sem tengdust málinu. „Það var ekki fyrr en þarna sem að ég var í alvörunni tilbúin til þess. Ég vildi komast til botns í þessu, og ég vissi að það var eitthvað sem ég yrði að gera. Þetta var alltaf að naga mig. Þessi spurning hefur alltaf brunnið á mér; Var ég ekki meira virði en þetta? Var ég ekki meira virði en einn skódi, eins og pabbi sagði? Og mér fannst ég verða að hafa uppi á þessum gögnum, því þá myndi ég allavega hafa eitthvað að vinna úr, eitthvað til að vinna út frá.“ Þess ber að gera að það var á fyrri hluta tíunda áratugarins sem Ingibjörg hóf fyrst leitina. Tölvu-og upplýsingakerfi voru töluvert frumstæðari en í dag og það var ekki hlaupið að því að nálgast áratugagömul gögn. Ingibjörg fékk þær upplýsingar frá lögfræðingnum sínum, sem nú er látinn, að þar sem að málið hennar væri fyrnt þá væru málsgögnin ekki lengur aðgengileg; það væri búið að eyða þeim. Dæmi um augljóst klúður Ingibjörg setti málið loks til hliðar en á seinasta ári kviknaði hjá henni löngun hjá til að fara aftur af stað í leitinni. Hún heyrði út undan sér að málið hennar hefði verið notað sem sýnidæmi við kennslu í lagadeild Háskóla Íslands, sem dæmi um augljóst klúður. „Ég spurðist fyrir um það, og fékk það svosem ekki staðfest. En þetta kveikti á einhverju hjá mér. Ég fann það bara svo sterkt að þetta var eitthvað sem ég yrði að fá botn í. Og ég hugsaði með mér að þar sem að tæknin er orðin aðeins framþróaðri í dag heldur en fyrir þrjátíu árum, þá gæti það kannski hjálpað til. Ég þarf að fá „closure“, mig vantar að fá lokun á þetta mál.“ Ingibjörg hyggst ekki gefast upp í leitinni.Vísir/Vilhelm Eitt af því sem Ingibjörg hefur undir höndum er fyrrnefnd upptaka úr fréttatíma RÚV frá árinu 1978. Hún setti sig einnig í samband við Þjóðskjalasafnið sem hefur verið henni innan handar í leitinni. Það dró til tíðina í seinasta mánuði en þá fékk hún loksins í hendur lögregluskýrslur sem ritaðar voru í tengslum við slysið á sínum tíma. „Og það var allt annað en auðvelt að lesa þetta eftir öll þessi ár.“ En Ingibjörg vill helst af öllu ná að komast yfir gögn varðandi dómsáttina sem var gerð í máli hennar á sínum tíma. Og það virðist vera hægara sagt en gert. Hún er þó ekki tilbúin að gefast upp. „Ég vil geta haft uppi á öllum gögnum sem til eru í kringum málið, til að geta skoðað það ofan í kjölinn. Ég vil gera þetta upp, í eitt skipti fyrir öll. Til að geta sleppt, og sætt mig við örlög mín. Þjóðskjalasafnið er ekki búið að gefast upp á leitinni með mér og ég hef fulla trú á að á endanum munum við finna það sem við leitum að.“
Vinnumarkaður Vinnuslys Helgarviðtal Suðurnesjabær Mest lesið Kosningavaktin: Landsmenn kjósa sér nýtt þing Innlent Kanónurnar sem eru að hverfa Innlent Lokatölur í Reykjavík suður: Fyrrverandi borgarstjóri og ritstjóri á þing Innlent Tárin streymdu þegar María Rut mældist inni Innlent Lokatölur úr Reykjavík norður: Stórsigur Samfylkingarinnar Innlent Ungur maður og spenntur fyrir framtíðinni Innlent Stefnir í að VG þurrkist út af þingi Innlent „Ég get ekki hugsað mér að fleiri börn lendi í honum“ Innlent Vísbending um að þetta séu „jarðskjálftakosningar“ Innlent „Ég byrja harður og svo er ég bara grillaður í restina“ Innlent Fleiri fréttir Lokatölur úr Suðurkjördæmi: Sigur Flokks fólksins „Ég byrja harður og svo er ég bara grillaður í restina“ Reyndi að brjótast inn með exi Lokatölur úr Reykjavík norður: Stórsigur Samfylkingarinnar Lokatölur í Reykjavík suður: Fyrrverandi borgarstjóri og ritstjóri á þing Kanónurnar sem eru að hverfa Ungur maður og spenntur fyrir framtíðinni Tárin streymdu þegar María Rut mældist inni Flokkurinn verði að líta inn á við Stefnir í að flokkunum fækki um tvo Flokkur fólksins í gríðarlegri sókn í Norðvesturkjördæmi Vísbending um að þetta séu „jarðskjálftakosningar“ Samfylkingin langstærst í kjördæmi Kristrúnar Stefnir í að VG þurrkist út af þingi Gríðarlega mikið fylgi sem dettur niður dautt Ljóst að þetta yrði brekka fyrir Framsókn Sjálfstæðisflokkur og Samfylking ná bæði fjórum inn í Kraganum „Ég veit ekki hvort ég er að koma eða fara“ Merkir hægribylgju en ekki vonbrigði Glaður maður en býst við batnandi tölum Samfylkingin og Flokkur fólksins bæta miklu við sig Sagði sínu fólki að tala ekki illa um aðra flokka Trúir því að fólk sé að detta VG megin í kjörklefanum Vegabréfið fór með atkvæðinu í kjörkassann „Ég trúi því að þjóðin sé að opna augun“ Viðbúið að talning tefjist í einhverjum kjördæmum Þriggja bíla árekstur og mikil umferðarteppa Kjördagur að kveldi kominn en nóttin rétt að byrja Tveir fluttir með þyrlu vegna rútuslyssins og einn fluttur vegna veikinda Þyrlan kölluð út vegna rútuslyss Sjá meira