„Við erum á að stofna á að opna um miðjan mars en það er ekki komin endanleg dagsetning“, segir Gerður í samtali við fréttastofu.
„Við fengum húsnæðið afhent 1.mars og það er allt á fullu, verið að setja upp innréttingar og svona. Ég er sjálf á leiðinni norður í næstu viku til að klára að græja og gera. Vonandi getum við opnað í næstu eða byrjun þarnæstu viku.“
Langþráður draumur að rætast
Gerður hefur að sögn lengi gælt við að opna verslun fyrir norðan. Hún hafi fundið fyrir mikilli eftirspurn en ekki fundið hentugt húsnæði fyrr en nú. Verslunin verður staðsett í verslunarmiðstöðinni Glerártorgi en þó er gengið inn að utan.
„Við erum með sér inngang og sér bílastæði beint fyrir utan, vísum út á Gleránna,“ útskýrir Gerður.
„Svo það er hentugt fyrir kynlífstækjaverslun að því leitinu til að fólk getur bara hoppað inn, en þarf ekki að ganga í gegnum alla verslunarmiðstöðina. Pínu næði.“
Verslun Blush á Dalvegi í Reykjavík er tæpir 900 fermetrar og gríðarlega íburðarmikil. Húsnæðið í versluninni á Akureyri er talsvert minna í fermetrafjölda en Gerður segir að þeim mun meira verði lagt í hönnun innandyra.
„Planið er að þetta endurspegli verslunina fyrir sunnan. Við stefnum á að vera með svona sjötíu prósent af vöruúrvalinu fyrir norðan en svo er hægt að fá sendar allar vörur með dagsfyrirvara.“
Loksins ástæða til að fara oftar til Akureyrar
Líkt og áður segir hefur Gerður fundið mikla eftirspurn eftir kynlífstækjaverslun fyrir norðan en hún segir einnig dýpri ástæður fyrir opnuninni.
„Ég er sjálf frá Akureyri og hef sterkar tengingar þangað. Stór hluti af minni fjölskyldu, ættingjum og vinum býr þar og nú hef ég loks ástæðu til að koma ennþá oftar til Akureyrar.
Gerður hvetur fólk til að fylgjast með á Blush á samfélagsmiðlum til að fá nánari upplýsingar um dagsetningu á opnun nýju verslunarinnar þegar hún liggur fyrir.