Myndbönd af Kim og Bianca á tónleikunum hafa birst á samfélagsmiðlum síðan í gærkvöldi og virðist Kim í besta falli leiðast og í versta falli mjög ósátt við að vera á tónleikunum við hlið nýju eiginkonunnar. Tónleikarnir fóru fram í Chase Center í San Fransisco í gærkvöldi í tilefni Vultures, nýútgefinnar plötu Kanye. Page Six birti myndir af dömunum á vef sínum í dag.
Konurnar tvær virðast ekki hafa spjallað mikið á tónleikunum, þó eitthvað. Kim einbeitti sér aðallega að syni sínum Saint á meðan Bianca söng ákaft með lögunum og myndaði tónleikana upp á símann sinn.
Gula pressan í Bandaríkjunum hefur undanfarna mánuði greint frá því að Kim, sem var gift Kanye frá 2014 til 2022 og á með honum fjögur börn, sé lítill aðdáandi framkomu Bianca í fjölmiðlum. Bianca hefur vakið mikla athygli fyrir djarfan klæðaburð en hún hefur ítrekað klæðst alveg gegnsæum fötum á almanna færi og jafnvel fyrir framan börn Kanye og Kim.
„Kim hefur sagt Kanye að banna Bianca að klæða sig svona fyrir framan börnin. Það kemur henni líka á óvart að Kanye leyfi eiginkonu sinni að fara úr húsi svona klædd,“ sagði heimildamaður náinn Kim í samtali við Daily Mail á síðasta ári.