Skoðun

Frelsi og fjár­hags­legt öryggi ung­barna­fjöl­skyldna

Vilhjálmur Árnason skrifar

Í síðustu viku var skrifað undir svokallaðan stöðugleikasamning á milli Samtaka atvinnulífsins og breiðfylkingar stéttarfélaga. Ríkisstjórnin og Samband íslenskra sveitarfélaga lögðu sameiginlega fram aðgerðir til að greiða fyrir gerð kjarasamninga sem gilda til næstu fjögurra ára. Ein þessara aðgerða ber sérstaklega að fagna, en það er hækkun hámarksgreiðsla úr Fæðingarorlofssjóði, er svo sannarlega löngu tímabær og ber henni að fagna.

Hækkun hámarksgreiðsla úr Fæðingarorlofssjóði hefur það að markmiði að treysta fjárhagslegt öryggi ungbarnafjölskyldna og tryggja samvistir barna við báða foreldra. Hámarksgreiðslur verða þannig hækkaðar í þremur áföngum á næstum tveimur árum: Þann 1. apríl 2024 úr 600.000 þúsund krón­um á mánuði í 700.000 kr., frá og með 1. janú­ar 2025 í 800.000 kr. og frá og með 1. janú­ar 2026 í 900.000 kr.

Það er löngu orðið ljóst að núverandi þak fæðingarorlofsgreiðsla, sem ekki hefur hækkað svo árum skiptir, hefur leitt um of til tekjufalls foreldra í fæðingarorlofi. Þetta hefur einna helst bitnað á mæðrum, sem að jafnaði taka lengra fæðingarorlof en feður. Hækkun hámarksgreiðsla mun vonandi leiða til þess að feður taki stærri hluta þess 12 mánaða fæðingarorlofs sem foreldrar eiga rétt á en hingað hefur tíðkast. Í þessu samhengi er rétt að benda á að hækkun greiðsla er eflaust mun betur til þess fallin að draga úr áhrifum á launatekjur foreldra heldur en fjölgun orlofsmánaða. Í kjölfarið af þessum tímabæru breytingum er rétt að líta til þess að auka frelsi foreldra í fæðingarorlofi þannig að þeir ráði sjálfir hvernig þeir skipti orlofsmánuðum á milli sín. Foreldrar geta þá hverju sinni ráðstafað orlofi sínu eins og þeir telja sér og barni sínu fyrir bestu, án þess að hið opinbera skipti sér af.

Höfundur er alþingismaður og ritari Sjálfstæðisflokksins.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×