Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir fjármála- og efnahagsráðherra hefur lýst andstöðu við að Landsbankinn kaupi allt hlutafé í TM trygginum af Kvikubanka. Hún segir stjórnendum bankans hafa borið að upplýsa Bankasýslu ríkisins um þessi áform.
„Það er ekki í anda eigendastefnu ríkisins og ég held að það sjái það flestir að það er eitthvað undarlegt við það,“ sagði Þórdís Kolbrún að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun. Hún biði nú eftir svörum stjórnenda Landsbankans til Bankasýslunnar vegna málsins.
Hlutverk Bankasýslunnar skýrt
Fjármálaráðherra hafði heyrt af áhuga Landsbankans á því að kaupa TM snemma á þessu ári. Hún segir það hafa verið á verksviði Banasýslunnar að fylgjast með starfsemi Landsbankans.
„Enda er það sú ákvörðun sem var tekin. Að halda þessu þar,“ segir Þórdís Kolbrún. Núna eftir að búið er að skrifa undir kaupsamning bankans á TM hefur Bankasýslan krafið bankaráði Landsbankans um skýringar á aðdraganda kaupanna.
Með stofnun Banasýslunnar á sínum tíma var rætt um nauðsynlega armlengd milli ráðherra og fjármálastofnana sem ríkið á hlut í. Fjármálaráðherra ætti því alla jafna ekki að hafa afskipti af stjórnun Landsbankans.
„Ef að bankinn væri að óska eftir auknu hlutafé til að ganga að þessum kaupum væri ljóst að það þyrfti samþykki hluthafafundar. Þannig þetta er mál sem að Bankasýslan þarf að skoða og eiga samskipti við bankaráð Landsbankans og við þurfum að sjá hvað kemur út úr því,“ segir Þórdís Kolbrún.
Þórdís Kolbrún sagði í færslu á Facebook í fyrrakvöld þegar upplýst hafði verið um kaup Landsbankans á TM að það myndi ekki geranst með hennar vilja án þess að sala á Landsbankanum ætti sér stað á sama tíma. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði hins vegar á Alþingi í gær að samkvæmt stefnu ríkisstjórnarinnar ætti ekki að selja hluti í Landsbankanum fyrr en sölunni á Íslandsbanka væri lokið. Almennt væru Vinstri græn á móti sölu Landsbankans.
Fjármálaráðherra staðfestir þennan skilning. Það stæði heldur ekki í sáttmálanum eða eigendastefnu að það ætti að þenja út ríkisbanka með því að kaupa fyrirtæki á markaði og gera þau að ríkisfyrirtækjum og stíga inn á tryggingamarkað.
„Ef að það er eitthvað sem er komið inn á borð þá í mínum huga þyrfti að horfa á það í öðru samhengi. Því það er ekki á stefnuskrá, hvorki út frá eigendastefnunni né stjórnarsáttmála þessarar ríkisstjórnar að ríkisvæða tryggingafélög.“
Lilja Björk Einarsdóttir sagði í fréttum okkar í gær að Landsbankinn væri ekki ríkisfyrirtæki heldur almenningshlutafélag. Stjórnendum bankans bæri að auka verðmæti hans eigendum til hagsbóta.
„Ef Landsbankinn væri almenningshlutafélag gæfist almenningi færi á að kaupa í bankanum sem hann hefur ekki fengið,“ segir Þórdís Kolbrún.
Viðtalið við fjármálaráðherra í heild sinni má sjá í spilaranum hér að ofan.