Skoðun

Vilja frí­verzlunar­samning í stað EES

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar

Meirihluti þeirra Norðmanna sem afstöðu taka með eða á móti vilja skipta aðild Noregs að EES-samningnum út fyrir víðtækan fríverzlunarsamning samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar þar í landi. Tveir af hverjum fimm aðspurðum tóku ekki afstöðu í könnuninni en ef miðað er við þá sem það gerðu eru rúm 60% hlynnt því að skipta EES-samningnum út fyrir fríverzlunarsamning en tæp 40% mótfallin.

Könnunin var gerð af fyrirtækinu Sentio fyrir norsku samtökin Nei til EU en niðurstöður kannana í Noregi þar sem spurt hefur verið um EES-samninginn annars vegar og fríverzlunarsamning hins vegar hafa á undanförnum árum ítrekað skilað niðurstöðum á hliðstæðum nótum. Hins vegar hafa kannanir, þar sem einungis hefur verið spurt um EES-samninginn, sýnt fleiri hlynnta áframhaldandi aðild að honum en andvíga.

Eina rökrétta skýringin

Við fyrstu sýn virðist fullkomið ósamræmi á milli þessara kannana en í raun er að öllum líkindum afar einfaldri skýringu fyrir að fara. Þannig hefur umræðan í Noregi, líkt og hér á landi, lengi byggzt á því að einungis séu tveir kostir í boði, áframhaldandi aðild að EES-samningnum eða innganga í Evrópusambandið. Fyrir vikið er líklegt að margir líti svo á að stuðningur við EES-samninginn sé andstaða við inngöngu í sambandið.

Þegar boðið er upp á annan valkost sem gengur alls ekki út á inngöngu í Evrópusambandið, fríverzlunarsamning, er fólki væntanlega ljóst að óhætt sé að tjá andstöðu sína við EES-samninginn án þess að hægt sé að túlka það sem stuðning við það að gengið verði í sambandið. Þetta er eina rökrétta skýringin á muninum á því þegar annars vegar er einungis spurt um EES-samninginn og hins vegar hann og fríverzlunarsamning.

Hefur þegar reynt á það

Hið sama á að öllum líkindum við hér á landi enda hefur umræðan hér lengi verið á sömu nótum. Það er að valið standi aðeins á milli inngöngu í Evrópusambandið eða áframhaldandi aðildar að EES-samningnum. Víðtækir fríverzlunarsamningar, eins og ríki heimsins kjósa allajafna að semja um sín á milli í dag, voru hins vegar ekki komnir til sögunnar þegar samið var um EES-samninginn fyrir rúmum 30 árum síðan.

Við Íslendingar höfum þegar látið á það reyna að skipta EES-samningnum út fyrir víðtækan fríverzlunarsamning. Það er í tilfelli Bretlands, annars stærsta viðskiptalands Íslands á eftir Bandaríkjunum, án þess að neitt færi á hliðina í samskiptum landanna og án þess að þurfa að framselja vald yfir íslenzkum málum í vaxandi mæli í gegnum upptöku á sífellt meira íþyngjandi regluverki líkt og í tilfelli EES-samningsins.

Höfundur er sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur (MA í alþjóðasamskiptum með áherzlu á Evrópufræði og öryggis- og varnarmál).




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×