Þetta er meðal þess sem fram kemur í svörum Landskjörstjórnar til Vísis. Tilefnið eru fréttir af því að hratt hafi fjölgað á lista yfir þá sem stofnað hafa til meðmælasöfnunar. Ásdís Rán Gunnarsdóttir, athafnakona og fyrirsæta, var meðal þeirra sem bent hafa á að fólk hafi ratað á listann fyrir slysni. Gerðist það eftir að DV deildi hlekki sem vísaði inn á síðu Þjóðskrár þar sem hægt var að skrá sig fyrir meðmælendum.
47 nú en í heildina áttatíu
„Okkur og Þjóðskrá Íslands hafa borist nokkur erindi um fólk sem hefur stofnað til meðmælasöfnunar en ætlað að mæla með framboði en þau eru ekki mjög mörg,“ segir í skriflegu svari frá landskjörstjórn.
Þar segir ennfremur að alls hafi um áttatíu manns stofnað söfnun á einhverjum tímapunkti. Nú séu hinsvegar 47 að safna. „Þannig að einhverjir hafa dregið söfnunina til baka. Það er einfalt að hætta við söfnunina á Mínum síðum á Ísland.is.“
Séu sannarlega 47 að safna meðmælum vegna mögulegs forsetaframboðs er um að ræða metfjölda. Árið 2020 skráðu fjórir sig fyrir slíkri söfnun en árið 2016 voru þeir rúmlega tuttugu.
Bent er á að framboðum sé ekki formlega skilað fyrr en 26. apríl. Þá fari landskjörstjórn yfir meðmælin og hver eru í kjöri.