Það var upp úr klukkan ellefu í gærkvöldi sem lögregla var kölluð út. Karlmaður hafði þá mölbrotið þykkar rúður í verslun Fiskikóngsins á innan við mínútu. Fiskikónginum Kristjáni Berg Ásgeirsson er ekki skemmt vegna málsins.
„Við erum vel tryggð en verslun okkar á Sogavegi opnar ekki fyrr en kl 12:00 vegna þessara uppákomu,“ segir Kristján í færslu á Facebook.
Guðmundur Pétur Guðmundsson lögreglufulltrúi segir að maðurinn glími við andlega erfiðleika. Hann segir manninn sjálfsagt hafa verið að reyna að komast inn til að hlýja sér.
Maðurinn hafi verið nánast handtekinn á staðnum eftir tilkynningu um lætin. Hann gisti fangageymslur í nótt.
„Þetta er afskaplega veikur maður sem þarf að komast undir læknishendur,“ segir Guðmundur Pétur. Maðurinn hafi margoft komið við sögu lögreglu, hann sé góðkunningi hennar.
„Við höfum handtekið hann margoft. Hann er í afskaplega slæmu ástandi,“ segir Guðmundur Pétur og vonast til að lögregla komi manninum í viðeigandi úrræði í dag.
„Svo við þurfum ekki að handtaka hann næstu nótt líka.“