Skoðun

Fyrir­liði Ís­lands

Helena Ólafsdóttir skrifar

Fátt sameinar okkur Íslendinga meira, í gleði og sorg, en að fylgjast með og styðja íþróttafólkið okkar á stórmótum á alþjóðavettvangi. Við vitum hvað þau hafa lagt ótrúlega mikið á sig til að ná í fremstu röð. Við erum stolt af þeim sem einstaklingum en kannski ekki síður sem Íslendingum því þau eru glæsilegir fulltrúar litla Íslands á stóra sviðinu.

Margir telja að það besta við íþróttir sé það að sigrar byggja yfirleitt á verðleikum sigurliðsins. Yfirleitt eru það bestu liðin eða hæfustu einstaklingar sem vinna. Við erum almennt sammála um að það sé sanngjarnt, svona þegar mesta kappið er runnið af okkur ef okkar fólk hefur tapað. Við berum nefnilega virðingu fyrir þeim sem hafa náð að standa framar en okkar fólk. Þess vegna viljum við að bestu leikmennirnir séu valdir í landsliðið. Og það er ekki bara sanngjarnt að hæfasti leiðtoginn sé fyrirliði, heldur er það sjálfsagt.

Fyrr í vikunni þá líkti forsetaframbjóðandinn Jón Gnarr forsetakosningum við fótboltaleik til að undirstrika hversu ósanngjarnt það væri fyrir hann og aðra frambjóðendur að Katrín Jakobsdóttir væri í framboði. Hann sagði að það væri eins og það væri leikur í öðrum flokki í fótbolta og svo mætti bara atvinnumaður úr meistaraflokki og ákvæði að taka þátt.

Ég get alveg tekið undir með Jóni að það sé ekki sanngjarnt að leikmenn í öðrum flokki þurfi að keppa við leikmenn í meistaraflokki, þó ég haldi reyndar að þeir hefðu bara gagn og gaman af því.

Hins vegar, þá er ég algjörlega ósammála Jóni um að forsetakosningar eigi að vera eins og keppni í öðrum flokki. Þær eiga að vera í meistaraflokki. Við erum kjósa okkur þjóðhöfðingja. Þá er ekki bara sanngjarnt fyrir okkur sem þjóð heldur sjálfsagt að við fáum að velja úr okkar besta fólki.

Það er auðvitað alveg rétt hjá Jóni að Katrín er fremst í hópi glæsilegra frambjóðenda. Hún hefur reynsluna, hæfnina, persónuleikann og sýnina sem þarf til að vera frábær forseti – fyrirliði Íslands.

Höfundur er framhaldsskólakennari og þáttarstjórnandi á Stöð 2 Sport.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×