Fjallað er um mótmælin á vef BBC, þar sem segir að kröfur mótmælenda séu að neyðarástandi vegna kynbundins ofbeldis verði lýst yfir á landsvísu. Ný löggjöf vegna kynbundins ofbeldis verði forgangsmál.
Martina Ferrara, einn af skipuleggjendum mótmælanna, sagði þörf á fleiri möguleikum þegar kæmi að því að tilkynna kynbundið ofbeldi. „Og við viljum að yfirvöld viðurkenni að upp sé komið neyðarástand og grípi til aðgerða strax.“
Anthony Albanese forsætisráðherra Ástralíu flutti ræðu á mótmælunum í höfuðborginni Canberra í dag. Hann segir ástandið þjóðarkrísu. Hann viðurkenndi að yfirvöld á öllum stigum þyrftu að gera betur í tengslum við kynbundið ofbeldi.
„Við verðum að breyta menningunni, viðmótinu, dómskerfinu og nálgun allra yfirvalda,“ sagði hann. „Við þurfum að átta okkur á því að það er ekki kvennanna að bæta þetta. Karlarnir þurfa að breyta viðhorfi karlanna.“
Kveikjan að mótmælunum var stunguárás sem gerð var í verslunarmiðstöð í Sydney fyrr í mánuðinum, þegar maður gekk um og stakk sex til bana, fimm konur og öryggisvörð sem freistaði þess að stöðva árásarmanninn. Lögregluyfirvöld í Sydney telja víst að árásin hafi beinst gegn konum.
Samkvæmt gögnum frá baráttuhópnum Destroy the Joint voru 27 konur drepnar fyrstu 119 dagana á árinu.