Hákon kom inn á sem varamaður þegar þrettán mínútur voru eftir. Hann hefur komið við sögu í 22 af 31 deildarleik Lille á tímabilinu.
Lille lenti undir á 23. mínútu þegar Georges Mikautadze skoraði fyrir Metz úr vítaspyrnu.
Brasilíumaðurinn Ismaily jafnaði fyrir Lille á 32. mínútu og mínútu fyrir hálfleik skoraði Yusuf Yazici sigurmark gestanna.
Eftir sigurinn er Lille með 55 stig í 3. sæti deildarinnar, þremur stigum á eftir Monaco sem er í 2. sæti. Paris Saint-Germain er langefst í deildinni og á meistaratitilinn vísan.