Nadía gekk nýverið í raðir Íslandsmeistara Vals frá Víkingum. Hún var lykilleikmaður í liði Víkings á síðasta tímabili þegar liðið tryggði sér sæti í Bestu-deildinni og fagnaði bikarmeistaratitlinum. Nadía spilaði með Víkingum frá árinu 2020 og á að baki tuttugu leiki í efstu deild á Íslandi.

Nadía sýnir lesendum Vísis hina hliðina þessa vikuna.
Fullt nafn? Nadía Atladóttir
Aldur? 24 ára
Starf? Eigandi Mó Mama barnafataverslun, mastersnemi í lögfræði og fótboltakona hjá Val.
Fjölskyldan? Með hverjum býrðu? Ég bý með kærastanum mínum Arnari Frey, syni okkar Marino og Emmu voffanum okkar.

Hvað er á döfinni? Fótboltasumarið er ný byrjað sem ég er hrikalega spennt fyrir og nú er allur fókusinn þar. Svo bara njóta sumarsins með fjölskyldunni og vinum.
Þín mesta gæfa í lífinu? Það er auðvitað fjölskyldan og vinir.
Ég er mjög heppin með gott fólk í kringum mig.
Hugarðu að heilsunni? Já að sjálfsögðu. Ég æfi mikið og vel, passa svefninn og svona þetta helsta.
Fallegasti staður á landinu? En í heiminum? Efri-Hamrar, sveitin hjá afa mínum, er algjör demantur fyrir austan, þar hef ég og fjölskyldan átt mjög eftirminnarlegar stundir saman í gegnum tíðina.
Af ferðalögum finnst mér Ítalía mesta beauty sem ég hef komið til, en ég á svo sem eftir að ferðast á staði sem ég veit að munu vera ofarlega á þessum lista hjá mér.

Hvað gerirðu til að endurhlaða batteríin? Göngutúr með hana Emmu mína er algjör núllstilling fyrir mig, en nauðsynlegt að hringja í tvo til þrjá úr fjölskyldunni á meðan eða gott hlaðvarp í eyrunum ef enginn svarar mér.
Hvað hefur mótað þig mest? Mamma mín og pabbi hafa mótað mig mjög mikið, en svo held ég að vera miðjubarn og eina stelpan hafi gert mjög mikið fyrir mig þar sem bræður mínir þurftu miklar athygli frá foreldrum mínum.

Hvað ertu að hámhorfa á? Ég var að byrja að horfa á Blue Lights og þeir eru að koma mér á óvart.
Uppskrift að drauma sunnudegi? Váá ef ég mætti velja væri það að vakna í frönsku ölpunum líta út um gluggan og sé það verður sólríkur dagur í fjallinu, fá mér góðan morgunmat og dríf mig út í brekkurnar.
Það er ekkert betra ég lofa!
Hvað viltu upplifa áður en þú deyrð? Ég verð að komast til Japan.
Býrðu yfir einhverjum leyndum hæfileikum? Leyndó.

Hvaða tungumál talarðu? Íslensku og ensku. Ég er alveg hrikaleg í dönskunni.
Besta heilræði sem þú hefur fengið? Komdu fram við aðra eins og þú vilt að aðrir komi fram við þig.
Hvað er það fyrsta sem þú gerir þú vaknar? Ég er fljót að standa upp og fara á salernið.
En það síðasta sem þú gerir áður en þú ferð að sofa? Slekk á sjónvarpinu líklegast.
Fyrsti kossinn? Guuuð ég man það ekki.
Hvað stendur í síðustu FB-skilaboðunum sem þú sendir? Ég að biðja Soffíu mína að breyta tímanum mínum í háreyðingarlaser hjá Húðfegrun.
Hælar eða strigaskór? Strigaskór, það þarf mikið að gerast svo skvísan fari á hælana.

Uppáhalds staðurinn á heimilinu? Nýja fallega eyjan mín er í miklu uppáhaldi þessa dagana. Við erum búin að vera í framkvæmdum síðan í nóvember en er nú loksins búið.
Hvaða lag kemur þér alltaf í gírinn? Skína með PBT.
Ertu A eða B týpa? Ég hef alla tíð verið frekar mikil B týpa, en ég finn að ég er að breytast. Síðastliðna tvo, þrjá mánuði hef ég verið að detta í algjöra A-týpu, ótrúlegt en satt.
Ertu með einhvern bucket-lista? Mig langar rosalega að fara til Japan og svo þarf ég að fara í fallhlífarstökk einn daginn.