Schauffele háði harða baráttu við Norðmanninn Viktor Hovland og Bandaríkjamanninn Bryson DeChambeau lengst framan af degi. Hovland stimplaði sig þó út úr baráttunni með skolla á átjándu braut.
DeChambeau bjargaði fugli á átjándu holu og lék því hringinn samtals á sjö höggum undir pari. Með fuglinum jafnaði hann Schauffele á toppnum á samtals 20 höggum undir pari, en þá var Schauffele enn á sextándu holu.
Schauffele þurfti því að næla sér í einn fugl á seinustu þremur holunum til að tryggja sér sigurinn og sleppa við bráðabana. Hann nældi í par á sextándu og sautjándu, en góð vippa á átjándu setti hann í kjörstöðu til að setja niður fugl og klára dæmið.
Schauffele brást ekki bogalistinn af stuttu færi og hann tryggði sér sigurinn með fugli á seinustu holu mótsins. Bandaríkjamaðurinn tryggði sér þar með rúmar 460 milljónir króna í verðlaunafé. Þetta var hans fyrsti sigur á risamóti.
Bryson DeChambeau hafnaði í öðru sæti á 20 höggum undir pari, einu höggi meira en Schauffele. Viktor Hovland varð þriðji á 18 höggum undir pari.