Framundan eru vináttuleikir þann 7. og 10. júní gegn Englandi og Hollandi.
„Ég ræddi við þá báða eftir síðustu leiki, upp á framtíðina, og vildi vita hvort þeir hefðu yfir höfuð áhuga á að spila fyrir Ísland í ljósi aldurs og meiðsla þeirra. Báðir eru mikilvægir karakter fyrir íslenska landsliðið, en þeir þurfa að vera heilir til að fá að spila. En báðir hafa mikinn áhuga á að spila og þeir elska Ísland.“
Aron Einar gerði þjálfaranum það skýrt sjálfur að hann myndi ekki geta tekið þátt í verkefninu.
„Ég ræddi við Aron og hann er ekki leikfær. Hann gerði mér það alveg skýrt, þannig það eru engin vandamál.“
Gylfi Þór Sigurðsson hefur verið að vinna sig upp í leikform og byrjaði tímabilið frábærlega með Val. Nýlega meiddist hann í baki og sú ákvörðun var tekin að hann yrði ekki valinn í þetta landsliðsverkefni.
„Ég ræddi við Gylfa og við sammæltumst um að það væri betra ef hann kæmi inn seinna, þegar hann hefur spilað fleiri leiki og æft meira með Val. Hann verður tekinn til greina gegn Svartfjallalandi og verður vonandi orðinn heill.“
Í ljósi þess þykir nokkuð áhugavert að Arnór Sigurðsson hafi verið valinn í hópinn. Arnór hefur ekkert spilað síðan hann fótbrotnaði í leik gegn Ísrael í mars.
„Ég talaði við hann, eins og staðan er erum við með 24 leikmenn, til að tryggja að við fyllum 23 manna hóp. Við þurfum bara að sjá hvort hann verði klár, en þess vegna erum við með 24 manna hóp til öryggis.“