Ég skil vel að Páli sárni að sjá að sykurhúðuðu snúðarnir eru farnir að mygla. Hvernig er staðan betri? Hvar er meðferðaráætlunin? Hvað er betur gert í fangelsinu í dag samanborið við þann tíma sem Margrét var forstöðumaður? Af hverju hefur allt það góða sem snýr að endurhæfingu eða betrun horfið, hvernig getur forstjóri Fangelsismálastofnunar sagt að allt sé miklu betra? Ef þetta er það besta sem Fangelsismálastofnun getur gert fyrir skjólstæðinga sína, hlýtur rangur maður að taka ákvarðanirnar.
Það er auðvelt að fela á bak við lög að ekki þurfi að leggja metnað í það sem hægt er að gera betur! Það er fullt hægt að gera og að fara eftir lögum! Það eina sem þarf að gera er að opna augun og sjá hlutina með opnum huga og skoða án mannfyrirlitningar hvað er í öllum kassanum, ekki bara hálfum kassa. Það er ástæða fyrir því að það sé svona mikil neysla inn í fangelsinu fangar hafa ekkert annað við að vera, takmörkuð vinna og sama og engin virkni í boði.
Því miður er alltaf eitt og eitt skemmt epli í starfsmannahópnum, það er bara þannig.
Þurfum við ekki að bæta kerfið áður en við bætum við plássum?
Núna þurfum við að horfast í augu við það sem er að gerast inni í fangelsinu og hvað betur má fara. Svo því sé haldið algjörlega til haga er meirihluti fangavarða frábært fólk og vill okkur föngum allt það besta.
Ég hef ekkert á móti Páli Winkel en ég velti því fyrir mér hvaða meðvirkni er með Halldóri Val.
Af hverju ver Páll metnaðarleysi Halldórs Vals? Er það metnaðarleysi eða kannski bara getuleysi?
ps.
en og aftur vil ég vitna í skýrslu Ríkisendurskoðanda.
Höfundur er fangi.