„Kæru vinir, mikið er ótrúlega gaman að sjá ykkur svona mörg hérna í kvöld. Ég verð bara að segja: Vá, þvílíka ferðalagið! Við erum búin að vera að núna, vitiði í hvað marga daga? Í 55 daga!,“ sagði Halla Hrund meðal annars.
Vinir og fjölskylda orðnir að stórri hreyfingu
Halla Hrund sagði fjölskyldu hennar og nokkra vini hafa hafið kosningabaráttuna. Á stuttum tíma hefði hópurinn vaxið í stóra hreyfingu.
„Við erum búin að vera hundruð manna að taka þátt í þessari kosningabaráttu um allt land og ég verð bara að segja, ég hef nú talað um það hvað frændgarðurinn hefur stækkað, en það er bara þessi vinabönd og þessi hópur sem hefur verið að vinna að þessari kosningabaráttu, ég veit að hér hefur fæðst eitthvað alveg ótrúlega sérstakt.“
Hún sagðist handviss um að ferðalagið muni binda hópinn saman út ævina. Orðin séu til vinabönd og tengsl sem séu akkúrat í anda kosningabaráttu hennar og sagði hún hópinn vera að efla seigluna og gleðina, við mikil fagnaðarlæti.
„Þetta er óvissuferð eins og við erum búin að vera í, við erum búin að vera í óvissuferð en við erum stödd hérna í Björtuloftum og hugsiði ykkur, það er strax farið að birta til. Og við förum með bjartsýni og gleði inn í þetta kvöld og ætlum að einbeita okkur að því að eiga góða stund saman. Þannig að kæru vinir, skál fyrir góðu kvöldi.“