Í hlaðvarpsþættinum Tölum um, sem er í umsjón kírópraktorsins Guðmundar Birkis Pálmasonar, ræðir Elli meðal annars um foreldrahlutverkið, listina og lífið í Las Vegas.
„Við erum stoltir fósturforeldrar og tökum að okkur börn sem vantar heimili. Það er oftast bara í stuttan tíma. Við byrjuðum á þessu þegar við fluttum til Las Vegas,“ segir Elli en hjónin hafa lítið viljað tjá sig opinberlega um foreldrahlutverkið fyrr en nú.
Elli segir að Maríu hafi dreymt um að ættleiða og hjálpa börnum frá því hún var barn.
„Í Las Vegas kynntist hún yfirmanni sínum sem vissi allt um ættleiðingarkerfið. Þetta er eitthvað sem maður heyrir ekki mikið um sérstaklega ekki á Íslandi. Það er svo mikið af börnum sem vantar hjálp. Við erum með opið heimili fyrir börn, sérstaklega lítil börn,“ segi Elli.
Ein stór fjölskylda
„Við fengum fyrstu fósturdóttur okkar þegar hún var þriggja daga gömul. Við þurftum að vera með henni uppi á spítala í tíu daga í alls konar rannsóknum, allt í góðu, og svo við fórum með hana heim og var hjá okkur þangað til hún var sjö mánaða,“ segir Elli.
Móður stúlkunnar bárust fregnir af góðri umönnun Ella og Maríu og hafði í kjölfarið samband við þau.
„Í flestum svona tilfellum heyrum við ekki aftur frá börnunum. En þær búa rétt hjá okkur. Anaja er þriggja og hálfs árs gömul og kallar mig ennþá pabba og Maríu mömmu, við erum bara ein stór fjölskylda. Þær eyða oft jólunum með okkur og páskunum,“ segir Elli.
Þáttinn má heyra í heild sinni hér að neðan: