Karl Ingi Vilbergsson, saksóknari hjá embætti héraðssaksóknara, segir þau enn bíða gagna. Fram kom í fréttum fyrr á árinu að héraðssaksóknari biði gagna erlendis frá.
Karlmaður á þrítugsaldri er grunaður um að hafa orðið Sofiu að bana og jafnframt talinn hafa spillt sönnunargögnum málsins áður en lögreglu var gert viðvart um andlátið með því að færa lík Sofiu.

Maðurinn neitar þó að hafa banað henni. Í fyrstu skýrslutöku sagði hann hana hafa látist af völdum ofskammts fíkniefna. Hann hafði komið að henni meðvitundarlausri á gólfinu á neðri hæð heimilis þeirra og líkami hennar þá verið orðinn stífur.
Hann sagði þetta hafa verið um tveimur klukkustundum eftir að þau hættu að stunda kynlíf, sem fól í sér endurtekin kyrkingartök, þar sem maðurinn þrengdi að hálsi konunnar. Því var haldið fram fyrir dómi að umrætt kynlíf hafi staðið yfir frá kvöldi fram til morguns og þau hafi bæði verið undir áhrifum kókaíns.
Maðurinn hefur frá fyrstu skýrslutöku breytt framburði sínum oftar en einu sinni.
Niðurstaða krufningar bendir til þess að andlát konunnar hafi borið að vegna kyrkingar en að kókaíneitrun hafi að minnsta kosti verið meðverkandi í andlátinu.
Maðurinn var handtekinn á vettvangi og úrskurðaður í gæsluvarðhald, sem var endurtekið framlengt til 31. ágúst. Eftir það var hann úrskurðaður í farbann til 1. desember en það ekki framlengt.