Miðstjórnarferð Nemendafélags Verzlunarskóla Íslands er árlegur viðburður þar sem nemendur fara í útilegu og skemmta sér langt fram á nótt. Nemendur skólans eru á aldrinum sextán til átján ára og í ár var farið í Þrastaskóg í Grímsnesi. Um 600 Verzlingar og vinir mættu og borguðu 5.500 krónur fyrir.
Í tjaldhafinu í Þrastaskógi skar eitt tjald sig úr. Það var tjald merkt veðmálafyrirtækinu Coolbet. Samkvæmt heimildum fréttastofu fékk nemendafélagið tjaldið að láni frá Coolbet, sem og gefins fatnað, merktan fyrirtækinu, til að nota sem vinninga í lukkuhjóli. Þá klæddust nemendur fatnaði Coolbet í auglýsingu fyrir útileguna og hvöttu fólk til að fylgja veðmálafyrirtækinu á samfélagsmiðlum.
Guðrún Inga Sívertsen er skólastjóri Verzlunarskólans. Hún segir framhaldsskólaviðburð þar sem gestir eru margir hverjir undir átján ára aldri og auglýsingar veðmálafyrirtækja alls ekki fara saman.
Það sé galið að Coolbet hafi auglýst sig í útilegunni og hún hafði ekki hugmynd um aðkomu þeirra fyrr en eftir helgi. Skólinn kemur ekki nálægt skipulagningu hennar heldur er hún eingöngu á vegum nemendafélagsins.

Þrátt fyrir að fyrirtækið sé ekki skráð hér á landi, enda veðmálastarfsemi ólögleg, eru íslenskir notendur Coolbet sagðir þrjátíu þúsund talsins.
Watch on TikTok
Illa hefur gengið að ná utan um starfsemi veðmálasíðna á Íslandi. Ólöglegt er að auglýsa veðmálasíður en á samfélagsmiðlum eru auglýsingar frá þeim mjög áberandi. Fjölmiðlanefnd, sem hefur áður sektað fjölmiðla fyrir að auglýsa veðmálasíður, er ekki með eftirlit þar.
Nefndin hefur þó áhyggjur af auknum sýnileika þeirra á samfélagsmiðlum og sendi Sýslumanninum á Suðurlandi erindi þess efnis í nóvember 2022. Sýslumaður á að hafa eftirlit með auglýsingum á samfélagsmiðlum. Einu og hálfu ári síðar hefur ekkert svar borist.
Í desember 2022 skilaði starfshópur á vegum Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, sem var dómsmálaráðherra þegar hópurinn var settur á laggirnar, skýrslu þar sem kom fram að skerpa þyrfti á banni við auglýsingum á ólöglegri netspilun og tryggja að slíku banni væri fylgt eftir.
Síðan hefur lítið gerst en athygli vakti þegar Áslaug mætti í viðtal hjá Coolbet rúmu ári síðar og spáði um úrslit í leikjum á HM í handbolta.
Fréttastofa hefur gert ítrekaðar tilraunir til að ná tali af fulltrúum Coolbet á Íslandi en án árangurs.