Spennan magnast vestanhafs fyrir kappræður Joes Biden og Donalds Trump, sem sendar verða beint út frá Atlanta í nótt. Frambjóðendurnir tveir mætast í fyrsta sinn í sjónvarpssal síðan í kosningabaráttunni fyrir fjórum árum. Við rýnum í kappræðurnar, sem sumir hafa lýst sem þeim mikilvægustu í sögunni, í beinni útsendingu í myndveri.
Við sýnum einnig frá mótmælagjörningi stuðningsmanna Yazans Tamimi, palestínsks drengs með vöðvahrörnunarsjúkdóm sem vísa á úr landi. Gjörningurinn vakti mikla athygli vegfarenda miðborgarinnar í dag.
Tesla Cybertruck verður til sýnis hér á landi um helgina, eftir að hafa flakkað um Evrópu síðustu vikur. Einn helsti Teslu-áhugamaður landsins segir bílinn uppfylla allar hans kröfur. Við förum á rúntinn á þessu óvenjulega sköpunarverki Elons Musk í fréttatímanum.
Þá verðum við í beinni útsendingu úr Laugardalslaug, þar sem eitt þekktasta tónlistartvíeyki landsins skemmtir sundgestum í kvöld.
Í sportpakkanum hittum við loks landsliðsþjálfara, sem gagnrýnir harðlega þá fjármuni sem settir eru í afrekssjóð ÍSÍ. Hann segir upphæðina þurfa að vera margfalt hærri.