„Lausnin notfærir sér gögn úr rafrænum reikningum og auðgar þau með ýmsum gagnalindum og sérfræðiþekkingu KPMG á kolefnisútreikningum. Upplýsingarnar eru svo birtar með skýrum hætti í lifandi mælaborði þar sem hægt er með einföldum hætti að skoða ítarleg gögn um það sem hægt er að bæta í sjálfbærni fyrirtækja,“ segir Kristín Hrefna Halldórsdóttir, forstöðuman gæða- og innkaupalausna hjá Origo.
„Markviss greining á kolefnisspori er forsenda þess að fyrirtæki geti mótað aðgerðir sem draga úr kolefnislosun og stuðla að sjálfbærni í rekstri. Með GreenSenze geta fyrirtæki fylgst með þróun mála með tilliti til markmiða fyrirtækisins og brugðist hratt við“.
Kristín bendir á að kröfur stjórnvalda um upplýsingagjöf á kolefnisspori fyrirtækja séu sífellt að aukast . Flest fyrirtæki muni þurfa að standa frekari skil á greiningum á kolefnisspori sínu á næstu árum.
Hafa engin tól til að greina umfang
Hún segir að greiningu á losun gróðurhúsalofttegunda hjá fyrirtækjum og stofnunum sé gjarnan skipt í þrjú umföng.
Umfang 1 nái yfir eldsneytisnotkun hjá bílaflota fyrirtækja, tvö að heildar orku- eða rafmagnsnotkun fyrirtækja og þrjú yfir allar aðkeyptar vörur og þjónustur, notkun á seldum vörum, fjárfestingum, vinnuferðum, samgöngum starfsfólks og fleira.
Hún segir mörg fyrirtæki standa frammi fyrir því vandamáli að hafa engin tól til þess að greina losun í umfangi þrjú, sem er yfirleitt stærsta umfangið eða um 60 til 70 prósent af allri losun fyrirtækja.

Það verði erfitt að uppfylla Parísarsáttmálann eða setja sér raunhæf markmið um sjálfbærni í rekstri ef fyrirtæki greina aðeins frá þriðjungi þeirra gróðurhúsalofttegunda sem þau losa. Á næstu árum megi búast við yfirvöld setji enn strangari reglur um kolefnisbókhald fyrirtækja og því nauðsynlegt að fyrirtæki finni leiðir til þess að greina frá sinni losun.
Kristín segir að lausnin muni hjálpa fyrirtækjum að fylgjast með stöðunni í rauntíma.
„Með GreenSenze má sjá þróun kolefnislosunar á milli mánaða, þar sem upplýsingar um kolefnislosun í innkaupum reiknast um leið og rafrænn reikningur berst. Lausnin greinir hvar hægt er að gera betur í kolefnislosun, sem veitir tækifæri til að bæta ákvarðanatöku og innleiða grænni innkaup.“