Liam Daði Jeffs kom Þrótti yfir á 38. mínútu. Vilhjálmur Kaldal Sigurðsson vann boltann þar af varnarmanni ÍBV og stakk honum inn fyrir á Liam Daða sem vippaði yfir markmanninn af mikilli stilli og snilli.
Vilhjálmur Kaldal komst svo sjálfur á blað á 58. mínútu þegar hann varð fyrstur í frákast af skoti Kára Kristjánssonar sem hafnaði í þverslánni. Boltinn datt fyrir Vilhjálm í teignum og hann kom honum í netið.
Eyjamenn minnkuðu muninn aðeins tveimur mínútum síðar þegar skot Tómasar Bent fór af varnarmanni og lak í netið.
Leikurinn var æsispennandi til enda, ÍBV kom boltanum aftur í netið en brot var dæmt í aðdragandum. Jöfnunarmarkið fékk því ekki að standa og Þróttur hirti öll þrjú stigin.
Þróttarar unnu þar sinn þriðja sigur í röð og eru nú með 15 stig í 6. sæti. Þór og Afturelding eru í sætunum fyrir neðan með 14 stig og mætast á sunnudaginn.
Upplýsingar um atvik og markaskorara eru fengin frá Fotbolti.net.