KR er án sigurs í síðustu sjö deildarleikjum sínum, en þar af hefur liðið tapað þremur leikjum og gert fjögur jafntefli. Síðasti deildarsigur KR kom gegn FH þann 20. maí síðastliðinn þar sem KR-ingar unnu 1-2 útisigur.
Þeir Lárus Orri Sigurðsson og Baldur Sigurðsson voru sérfræðingar í síðasta þætti Stúkunnar þar sem farið var yfir stöðu KR-inga. Lárus Orri hefur áhyggjur af stöðu mála.
„Ég held að það verði örugglega einhverjar breytingar og ég er bara alls ekki sammála því að það sé einhver heildarbragur að myndast á varnarleik KR,“ sagði Lárus Orri.
„Þeir spila ekki sama leikkerfi í þessum tveimur leikjum og þeir eru greinilega í einhverri tilraunastarfssemi og að reyna að finna út hvernig þeir eiga að spila þetta þannig ég get ekki séð að þetta sé að skána á nokkurn hátt,“ bætti Lárus við.
„Þeir eru að fá færri mörk á sig, en þeir eru ekki að fá mikið af stigum og mistökin sem þeir eru að gera eru bara þau sömu og hafa verið. Þannig ég get ekki séð að þetta sé að lagast mikið.“
Umræðuna í heild sinni má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.