Vilhjálmur og Katrín hafa látið taka nýja portrett mynd af Georgi á hverju einasta afmæli hans. Um er að ræða hefð sem hefur einnig náð til yngri systkina Georgs, þeirra Karlottu og Lúðvíks. Fram kemur í færslunni á Instagram að myndin sé tekin af Katrínu prinsessu.
Á svarthvítri myndinni má sjá Georg brosa framan í myndavélina. Hann er klæddur í dökkan jakka og hvíta skyrtu.
Stærri útgáfa af myndinni er birt í hringrás (e. story) hjónanna á Instagram. Þar má sjá að hann er með eins konar vinaarmband á vinstri hönd sinni.
People veltir því upp að þarna sé mögulega um að ræða minjagrip frá því þegar Georg og Karlotta fóru með föður sínum á tónleika með tónlistarkonunni Taylor Swift. Hörðustu aðdáendur hennar mæta iðulega með vinaarmbönd á tónleika hennar og jafnvel þó nokkur stykki, til að skipta við aðra aðdáendur.