Skoðun

Cut The Crap!

Davíð Bergmann skrifar

Þegar ég sá fréttina sem birtist fyrir stuttu síðan í fjölmiðlum landsins frá Viðskiptaráði að þeir telji að það sé skynsamleg ráðstöfun að hverfa aftur til samræmdra prófa í grunnskólum landsins, fór hrollur um mig. Ég þó þakklátur því að menntamálaráðherra sló þessa hugmynd strax út af borðinu og skólasamfélagið líka.

Af hverju jú vegna þess að ég hef upplifað það að vera báðum megin við borðið, annars vegar sem barn sem átti bókina sem minn versta óvin í lífinu og hins vegar sem ráðgjafi í 30 ár með olnbogabörnum samfélagsins og ég starfa þar en. Mikill meiri hluti þeirra sem ég hef verið að vinna með þessi 30 ár eiga einmitt bókina sem sinn versta óvin í lífinu.

Hvernig má það vera að Viðskiptaráð leggi þetta til að hverfa aftur til fortíðar þegar skrifstofa Sveitarfélaga á Höfuðborgarsvæðisins stofnar nefnd til að kanna stöðu barna og ungmenna sem fara halloka í samfélaginu. Niðurstaða þeirra nefndar var að 3000 ungmenni á aldrinum 16-24 eru hvorki í vinnu né skóla í desember 2022. Ég bíð spenntur eftir nýju skýrslunni sem ég veit að er í vinnslu hvort staðan hafi eitthvað breyst núna 2024.

Þyrftum 5 nýjar Fjölsmiðjur á höfðuðborgarsvæðinu

Jæja stöldrum við hvernig má það vera góða hugmynd að hverfa aftur til fortíðar eins og Viðskiptaráð leggur til. Hvert myndi það leiða okkur í fjórðu iðnbyltingunni, þegar sjálfvirknivæðing á bara eftir að vaxa og verður helsti keppinautur barna sem geta ekki lesið sér til gagns í framtíðinni á vinnumarkaði?

Er hugsanlegt að það muni leiða til þess að öryrkjum muni fjölga og þeir munu verða yngri framtíðinni? Er það okkar litla samfélagi til hagsbóta að fjölga þeim og myndi það vera okkur til framdráttar?

Ímyndum okkur að þetta yrði að veruleika eins og Viðskiptaráð leggur til að samræmd próf yrðu tekin upp að nýju. Hvað þyrftum við þá gera? Það fyrsta sem kæmi upp í huga minn væri að við þyrftum þá að lágmarki að stofna 5 nýjar Fjölsmiðjur á höfuðborgarsvæðinu. 

Ef við gerum það ekki tel ég að það myndi auka á stéttaskiptingu í skautun samfélaginu en meira en hún er dag. Því staðreyndin er þessi og það verður ekki litið fram hjá því að drengjunum okkar fjölgar sem geta ekki lesið sér til gagns. Vélvæðing framtíðar mun ekki hjálpa þeim að komast til manns, nema með miklum stuðningi og það gerum við í gegnum skólakerfið okkar. Sóknarfærið liggur í því að styrkja úrræði eins og Fjölsmiðjur og um allt land og iðnnámið en frekar en ekki bara á Höfuðborgarsvæðinu.

Styrkjum menntakerfið

Ég segi eins og einn og góður vinur minn segir svo oft „Cut The Crap“ þegar vitleysan ríður ekki einteymingi þá notar hann oft þessa setningu. Það sem þarf fyrst og fremst að gera er að forgangsraða upp á nýtt og dæla fjármagni í framtíðina, sem eru börnin okkar. Styrkja menntakerfið til muna á öllum skólastigum og þar með talið úrræði eins og Fjölsmiðjuna. Hún ætti vera efst á forgangslistanum sér í lagi í ljósi þess að veruleikinn sé sá að 3000 ungmenni eru hvorki í skóla né vinnu. 

Fjölsmiðjan er frábær vettvangur fyrir þá einstaklinga því oft eru þeir sem leita þangað með langa og ljóta sögu úr skólakerfinu. Koma út úr skólakerfinu með brotna sjálfsmynd því þau hafa ekki rúmast þar inni. Eða eins og annar góður vinur minn sagði sem ég vann með í útdeildinni í gamla daga „þau passa ekki í kassann, ef þú aðlagast ekki vertu þá úti“ og hann hafði svo sannarlega rétt fyrir sér sá vinur minn.

Gamli góði tossabekkurinn

Mín grunnskóla ganga var ekki auðvelt og ég þurfti að upplifa mikla niðurlægingu á meðan á henni stóð. Eins og það að vera settur í tossaskóla þar sem næstum helmingurinn af honum var alvarlega þroskaskertur. Ég er það ekki, heldur var ég að glíma við sértæka námserfiðleika vegna höfuðhöggs sem ég fékk sem smábarn. Það var reyndar ekki til neitt hugtak yfir það í þá daga en í dag er það kallað vera lesblindur og vera með ADHD.

Ég hugsa ekki fallega til félags og skólaþjónustu Kópavogs sem stillti foreldrum mínum upp við vegg og hótuðu þeim að taka mig frá þeim ef þau hlýddu þeim ekki. Það sem beið mín var að vera sendur í burt vegna þess að skólinn ætlaði ekki að aðlagast mér heldur átti ég að aðlagast honum. Og það gat ég ekki. Þá var lausnin að koma þessum dreng sem lengst frá sveitarfélaginu og hans nánustu og vinum og rjúfa öll þau félagslegu tengsl sem hann var búinn að byggja upp á sinni lífsleið. 

Ósigrar hafa áhrif á fullorðinsárum

Allir þeir ósigrar sem ég upplifði á þessum árum höfðu tvímælalaust áhrif á mín fullorðins ár. Þessi sturlaða ákvörðun skólayfirvalda verður aldrei fyrirgefin. Svo það sé tekið fram þá voru foreldrar mínir ekki í óreglu eða rugli heldur var það höfuðhöggið sem ég fékk 8 mánaða sem var orsökin fyrir þessu helvíti sem þetta sannarlega var.

Þó svo að foreldrar mínir hafi allt mitt líf átt heima á sama stað í Kópavogi þá mun ég aldrei líta á mig sem Kópavogsbúa því ég gleymi því seint að vera sendur landshornanna á milli með ferðatösku og nánast alla mína æsku. Ég get ekki sagt að upprunni minn og æskustöðvar hafi verið Kópavogur í raun og veru átti ég hvergi heima þar að leiðandi festi ég aldrei rætur neins staðar í minni æsku. Þó svo að ég hafi verið tapari í skólakerfinu sem barn þá tókst mér að verða nýtur þjóðfélags þegn á þak yfir höfuðið börnin mín og tókst að komast til manns. 

Margir með áskrift að fangelsum

En það var ekki þannig með alla þá sem ég var samferða á mínum grunnskóla árum. Sumir hafa haft fasta áskrift í fangelsum landsins eða komið við á stofnunum og jafnvel dregið fram lífið á lífeyrisgreiðslum eða yfirgefið mannheima löngu fyrir aldur af ýmsum ástæðum. Einn er sérstaklega minnisstæður hann er búinn að eyða í heildina meira en 25 árum á bak við lás og slá á sinni lífstíð.

Hins vegar held ég ef ég væri að koma úr skóla í dag með mína sögu að þá ætti ég ekki möguleika því körfurnar eru meiri og sjálfvirknivæðing myndi taka frá möguleikana og ódýrt erlend vinnuafl sem er með reynslu á bakinu á vinnumarkaði frá sínu heimalandi.

Kannski liggur skýringin í því að 3000 ungmenni eru hvorki í skóla né vinnu vegna þess að við sem samfélag höfum brugðist. Ég held að það eigi vel við að segja að lokum einu sinni en „Cut The Crap“ og förum að nálgast menntamálin með nýrri nálgun og vinnum að þeim með hagsmuni allra barna í huga ekki bara þeirra sem ná samræmdu prófunum.

Höfundur er ráðgjafi.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×